Útskrift 10. bekkjar

Útskrift 10. bekkjar var haldin hátíðleg fimmtudaginn 4. júní  í matsal skólans.  Salurinn var í hátíðarbúningi.  Nemendur og foreldrar mættu spariklæddir á útskriftina sem og kennarar skólans.

Athöfnin hófst á ávarpi Guðrúnar G. Halldórsdóttur, skólastjóra og í kjölfarið kom að stóru stundinni þar sem Margrét Ármann deildarstjóri, afhenti einkunnir sem og viðurkenningar fyrir góðan námsárangur.  Skemmtiatriði kom frá útskriftarnemanum, Hilmi Þór Hugasyni sem spilaði listavel á píanó tvö lög og tók salurinn hressilega undir seinna lagið. Fulltrúi foreldra, Dagný Broddadóttir, flutti einnig ávarp til nemenda. Útskriftardagskráin var með hefðbundnu sniði en sú breyting varð á, að í stað þess að foreldrar kæmu með veitingar á hlaðborð og gæddu sér á þeim ásamt nemendum og kennurum, þurftu foreldrar að fara heim að athöfn lokinni vegna aðstæðna í þjóðfélaginu.  Þar sem árshátíð unglindadeildar hafði ekki verið haldin á vordögum vegna covid19 tók árshátíð 10. bekkinga við að útskriftarathöfn lokinni.  Skólinn sá um smáréttarhlaðborð fyrir nemendur og kennara 10. bekkinga, árshátíðarmyndböndin voru flutt og síðan tók dansiball við.  Að árshátíð lokinni kl. 22:30 tók andvökunótt við á vegum félagsmiðstöðvarinnar Jemen fyrir 10. bekkinga og stóð til kl. 06:00 morguninn eftir.  Það voru því þreyttir og sælir 10. bekkingar sem örkuðu heim á leið að morgni 5. júní eftir ansi atburðarríkan og skemmtilegan sólarhring.

Starfsfólk Lindaskóla óskar útskriftarnemum til hamingju með daginn og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Hér eru myndir frá útskriftinni...

Posted in Fréttaflokkur.