Skólareglur

Til að tryggja gott skólastarf setjum við í Lindaskóla okkur þessar reglur og gilda
þær á skólatíma, í ferðum og á skemmtunum á vegum skólans.

 1. Nám er vinna
  Skóli er vinnustaður nemenda, kennara og starfsmanna og til að ná þeim
  markmiðum sem stefnt er að þarf að ríkja vinnufriður. Því er virðing og
  tillitssemi fyrir tíma annarra og fyrirhöfn nauðsynleg.
 2. Stundvísi
  Nemendur mæta alltaf stundvíslega skv. stundaskrá nema veikindi eða
  önnur gild forföll komi í veg fyrir það. Foreldrar/forráðamenn bera ábyrgð
  á skólasókn nemenda og skulu tilkynna forföll til skólans svo fljótt sem
  auðið er. Óskir um leyfi skulu alltaf koma frá forráðamönnum.
  Umsjónarkennari hefur heimild til að veita leyfi í einn dag, en ef um fleiri
  daga er að ræða skal sækja um það til skólastjóra eða á heimasíðu
  skólans. Foreldrar/forráðamenn bera ábyrgð á að nemendur vinni upp það
  nám sem þeir verða af í leyfum.
 3. Framkoma
  Öllum starfsmönnum Lindaskóla, nemendum, kennurum og öðrum ber
  ávallt að sýna fyllstu kurteisi og vandað orðbragð í öllum samskiptum.
  Nemendum ber ætíð að fara eftir fyrirmælum kennara og annarra
  starfsmanna.
 4. Umgengni
  Nemendur gangi vel um skólann og eigur hans, bæði innandyra og utan.
  Það gildir um námsbækur, húsbúnað og skólahúsnæðið sjálft. Nemendum
  er óheimilt að hafa í fórum sínum eldfæri, hnífa eða annað það sem getur
  skaðað þá sjálfa eða aðra.
 5. Skólalóð
  Nemendum er óheimilt að fara út af skólalóðinni í útivist. Nemendum ber
  að temja sér friðsamlega framkomu og trufla ekki aðra í leik og starfi.
  Hjólreiðar og óþarfa akstur á skólalóð er bannaður á starfstíma skólans
  vegna slysahættu. Notkun línuskauta, hlaupahjóla og hjólabretta er
  eingöngu leyfð á tilteknu svæði fyrir nemendur í 5. – 10. bekk. Öll
  farartæki skulu geymd utandyra og eru á ábyrgð nemenda. Nemendur eru
  hvattir til að nota viðeigandi öryggisbúnað.
 6. Tæki nemenda
  Öll notkun farsíma er óheimil í kennslustundum. Öll tæki í eigu nemenda
  eru alfarið á ábyrgð þeirra sjálfra.
 7. Heilbrigðar lífsvenjur
  Nemendur mega ekki neyta sælgætis eða gosdrykkja á skólatíma nema
  við sérstök tækifæri. Neysla tóbaks, áfengis og annarra vímuefna er með
  öllu bönnuð í skólanum og þar sem nemendur koma saman eða ferðast á
  vegum skólans.
 8. Nánari reglur og ákvæði
  Kennurum og starfsfólki er heimilt að setja nánari reglur á starfsstöðvum
  sínum, ekki síst þar sem starfsemi krefst þess.

Viðurlög við brotum á skólareglum

 1. Ef um brot á skólareglum er að ræða er ferlið eftirfarandi:
  a. Ef nemandi brýtur skólareglur áminnir nálægur kennari/starfsmaður
  nemandann.
  b. Dugi áminnig ekki ræðir umsjónarkennari við nemanda og tilkynnir
  foreldrum/forráðamönnum stöðu mála og leitar jafnframt aðstoðar
  þeirra.
  c. Við ítrekuð brot eru foreldrar/forráðamenn boðaðir í skólann til
  viðræðu við umsjónarkennara um agavanda nemandans.
  d. Dugi þessi úrræði ekki kemur málið til kasta deildarstjóra. Hann
  kallar nemanda á sinn fund og ræðir þau brot á skólareglum sem
  nemandi tengist. Foreldrar/forráðamenn skulu upplýstir um það sem
  fram fer á þessum fundi.
  e. Við ítrekuð eða alvarleg brot á reglum skólans eða landslögum er
  skólastjóra heimilt að vísa nemanda úr skóla á meðan unnið er að
  lausn mála. Forráðamönnum og fræðsluyfirvöldum verður tilkynnt
  um þá ákvörðun.
  f. Ef nemandi lætur enn ekki segjast ræðir skólastjóri við nemanda og
  foreldra/forráðamenn hans, um leið fer málið fyrir
  nemendaverndarráð og þaðan til framkvæmdastjóra
  fræðslusviðs/félagsþjónustu Kópavogs með viðeigandi úrræðum.
  g. Um leið og foreldrum er tilkynnt um agabrot nemandans skal skrá
  það í dagbók nemandans og allan feril málsins eftir það.
 2. Fari nemendur ekki að reglum um fjarskipta- og farartæki geta þeir búist
  við að tækjum verði komið til skólastjórnenda hvar foreldrar/forráðamenn
  þurfa að vitja þeirra.
 3. Forráðamenn nemenda eru bótaskyldir ef um skemmdir verðmæta er að
  ræða.
 4. Upplýsingar um viðurlög er varða skólasókn er að finna á heimasíðu
  skólans www.lindaskoli.is.

Í Lindaskóla er andmælaréttur virtur og jafnræðis gætt í meðferð allra mála.