Forvarnarstefna Lindaskóla

Í Lindaskóla skal ætíð leitast við að nemendur velji sér þann lífsmáta sem er án tóbaks og vímuefna. Það skal gert með stuðningi við sterka sjálfsmynd og félagatengsl nemenda sem og öflugri fræðslu um skaðsemi slíkra efna.

Nemendur skulu fylgja þeim reglum sem gilda í þjóðfélaginu um notkun tóbaks og vímuefna. Sé einhver misbrestur þar á í skóla, skólalóð, samkomum eða ferðalögum á vegum skólans skal án tafar brugðist við því.

Samvinna er milli skólans og félagsmiðstöðvarinnar Jemen um forvarnir og almenna líðan unglinga á unglingastigi. Þar funda reglulega deildarstjóri unglingastigs, náms- og starfsráðgjafar og forstöðumaður félagsmiðstöðvar Jemen.

Ferðir nemenda þar sem blandað er saman útiveru og góðum félagsanda er stór hluti af
forvarnastefnu skólans og eru þær skipulagðar markvisst fyrir nemendur í 5.-10. bekk. Forvarnir eru skipulagðar af deildarstjóra elsta stigs.

1. – 4. bekkur unnið með vináttu og samskipti


Áhersla er lögð á að mynda jákvæða hópímynd og reyna að fella alla nemendur inn í hana. Fyrstu vináttuböndin myndast strax í upphafi skólagöngu og því er afar mikilvægt að reyna strax að efla jákvæða sjálfsímynd einstaklinga og gera þá ábyrga fyrir vellíðan allra bekkjarfélaga sinna. Kennarar vinna markvisst og meðvitað að því að gera sinn hóp jákvæðan. Til þess nota þeir klípusögur, hópefli, bekkjarfundi og samvinnuverkefni þar sem börnunum er ætlað að ræða opinskátt við kennara sinn og vini. Hjúkrunarfræðingar eru með fræðslu til að styrkja sjálfsmynd nemenda, jákvæð samskipti og mikilvægi þess að vera hugrakkur og standa gegn óæskilegri hegðun.

5. – 7. bekkur unnið með heilbrigðar tómstundir og samvinnu


Lögð er áhersla á hreysti og heilbrigt líferni. Rætt er um tómstundir og samvinnu í og utan skóla því að á þessum aldri hafa nemendur orðið þörf fyrir meiri félagsskap jafnaldra. Kennarar eru með innlögn og umræðutíma. Hjúkrunarfræðingar eru með hugrekkisfræðslu um samskipti, félgasþrýsting, styrka sjálfsmynd og kynþroskafræðslu.

8. – 10. bekkur unnið með fræðslu og lífsstíl


Þetta er sá hópur sem verður fyrir mestu áreiti frá þeim sem neyta tóbaks og vímuefna. Því verður að leggja mikla áherslu á fræðslu um skaðsemi þessara efna. Leggja þarf áherslu á að nemendur taki persónulega afstöðu í þessum málum og læri að lifa í þjóðfélagi með tóbaki og vímuefnum. Ræða þarf mismunandi lífsstíl fólks og mikilvægi þess að velja sjálfur sinn eigin lífsstíl. Nauðsynlegt er að ræða um náin samskipti s.s kynheilbrigði og kynhegðun og þá ábyrgð sem fylgir því að lifa kynlífi.
Vinna þarf með ábyrgð einstaklingsins á eigin lífi og að hann læri að setja sér markmið sem tengjast áhuga og hæfileikum.

Hjúkrunarfræðingur kemur inn í 8.-10. bekk og fjallar um:

8. bekkur: Líkamsímynd
9. bekkur: Kynheilbrigði
10. bekkur: Ábyrgð á eigin líkama.

Örugg saman kennsluefni gefið út af Landlæknisembættinu er kennt í 10.bekk. Efnið fjallar um heilbrigð samskipti sem hugsað er sem forvarnarefni gegn andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi í samböndum unglinga.