Saman í sátt
Skilgreining á einelti
Það telst einelti þegar um ítrekað ofbeldi er að ræða gagnvart sama eða sömu einstaklingum
og getur það bæði verið líkamlegt og andlegt. Einstök stríðni, ágreiningur eða átök milli
jafningja telst ekki til eineltis. Mikilvægt að gera greinamun á samskiptavanda og einelti.
Einkenni eineltis
- Einelti nær stundum yfir langt tímabil og gerir líf þolandans mjög erfitt.
- Ójafnvægi er í styrkleikasambandi milli gerenda og þolenda. Sá sem
verður fyrir eineltinu ver sig ekki alltaf sjálfur heldur lætur það yfir sig ganga. - Þeir sem lenda í eineltisaðstæðum eru þolendur, gerendur og
áhorfendur/viðhlæjendur sem taka ekki beinan þátt en koma þolandanum ekki til
hjálpar.
Fyrirbyggjandi aðgerðir
Lindaskóli hefur frá upphafi lagt áherslu á góð samskipti við foreldra þannig að
foreldrar finni sig velkomna í skólanum bæði þegar vel gengur og eins ef eitthvað
bjátar á.
Nýir nemendur fá sérstakar móttökur hjá deildarstjóra við skólabyrjun. Þeir fá síðan
viðtal við náms- og starfsráðgjafa nokkrum vikum eftir skólabyrjun.
Hópefli er skipulagt fyrir nemendur, bæði í gegnum kennslu í lífsleikni og með
skipulögðum ferðum nemenda.
Lögð áhersla á að nemendur læri góð samskipti. Öllum nemendum verður að vera
ljóst hvað einelti er og að einelti er ekki liðið í Lindaskóla.
Bekkjarfundir eru haldnir reglulega í öllum bekkjum skólans.
Nemendur eru hvattir til að láta vita ef þeir vita af nemanda sem verður fyrir einelti.
Fylgst er með líðan nemenda með tengsla- og eineltiskönnunum sem lagðar eru fyrir
a.m.k. tvisvar á ári. Náms- og starfsráðgjafi skólans hefur umsjón með þeim.
Haustviðtöl við nemendur í 8.-9. bekk um líðan og samskipti. Umsjónarkennarar sjá
um viðtölin.
Deildarstjórar og náms- og starfsráðgjafi eru ætíð til aðstoðar í eineltismálum, á
hvaða stigi málsins sem er.
Á haustfundum er rætt við foreldra um mikilvægi þeirra í eineltis- og
samskiptamálum.
Ferill eineltismála
Tilkynning um einelti
Ef starfsfólk skólans verður vart við einelti meðal nemenda eða fær tilkynningu um það frá
nemendum, foreldrum eða öðrum ber að tilkynna það til viðkomandi umsjónarkennara sem
tilkynnir deildarstjóra.
Greining og mat á einelti
Umsjónarkennari greinir málið samkvæmt skilgreiningu skólans á einelti. Hann metur
umfang málsins með því að afla upplýsinga hjá þolanda, forráðamönnum hans, nemendum
og öðru starfsfólki. Höfum það í huga að málefni er varða einelti geta verið mjög misjöfn og
því mikilvægt að skoða vel hvert einstakt mál og vinna samkvæmt því. Áætlunin er rammi
sem við styðjumst við.
Aðgerðir umsjónarkennara
- umsjónarkennari setur aðra kennara þolandans og starfsfólk inn í málið. Hann gerir
forráðamönnum þolanda grein fyrir málinu og veitir upplýsingar um úrræði sem þeim
stendur til boða samkvæmt eðli málsins, til dæmis viðtöl við náms- og starfsráðgjafa
og/eða sálfræðing skólans. - umsjónarkennari ræðir við þolanda/þolendur.
- umsjónarkennari ræðir við geranda/gerendur og forráðamenn þeirra eftir eðli
málsins. - umsjónarkennari getur tekið einstaklings- og hópviðtöl við nemendur og unnið
samkvæmt aðferðum sem lýst er í bókinni Saman í sátt. En sú bók lýsir aðferðum til
að koma í veg fyrir samskiptavanda og einelti. - umsjónarkennari getur lagt tengslakönnun fyrir bekkinn.
- umsjónarkennari fjallar um jákvæð og uppbyggileg samskipti. Hann og/eða aðrir
kennarar geta notað bókmenntir sem fjalla um samskipti og geta stuðlað að
siðferðilegum vangaveltum meðal nemenda með það að markmiði að þeir læri að
setja sig í spor annarra. - mikilvægt er að umsjónarkennari skrái allar aðgerðir og gæti trúnaðar í meðferð
málsins. - umsjónarkennari leitar ráðgjafar hjá samstarfsfólki og/eða öðru fagfólki.
Telji umsjónarkennari sig ekki geta leyst málið eða aðgerðir hans bera ekki árangur ber
honum að vísa því skriflega til nemendaverndarráðs með vitund forráðamanna þolandans.
Nemendaverndarráð getur falið einum eða fleiri aðilum að vinna að lausn málsins.
Allir starfsmenn skólans skulu fara eftir aðgerðaráætlun skólans varðandi eineltismál.