Koffortin fljúgandi

Koffortin fljúgandi er heiti á farandverkefni fyrir grunnskólabörn í 1. – 7. Bekk í Kópavogi. Í koffortunum eru bækur, verkefni og leikir sem tengjast norrænum barnabókmenntum. Hönnuðir koffortanna eru þær Anja Ísabella Lövendholt og Magna Rún Rúnarsdóttir.

Titill verkefnisins kemur úr sögu  H. C. Andersen þar sem ungur maður ferðast um heiminn í koffortinu sínu og segir samferðafólki sínu sögur. Sagnagleði söguhetjunnar varð kveikjan að verkefninu um Koffortin fljúgandi sem byggist á fjórum koffortum innblásnum af sögum Tove Jansson, H. C. Andersen og myndskreytingum Ilon Wikland fyrir ævintýri Astrid Lindgren. Hver taska hefur sitt þema og inniheldur muni tengdum sögum höfundanna, bæði  bækurnar sjálfar og uppdrátt að leikjum eða verkefnum sem tengjast hverju þema fyrir sig. Ennfremur er Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna gerð sérstök skil í einu koffortanna og sett í samhengi við sagnaheim H. C. Andersen.  Koffortin verða hér í Lindaskóla til föstudagsins 25. nóvember.

 

Posted in Fréttaflokkur.