Hefðbundið skólastarf hefst mánudaginn 4. maí

Næstkomandi mánudag, 4. maí, verður gleðidagur í Lindaskóla því þá hefst hefðbundið skólastarf að nýju samkvæmt stundaskrá. Löngu tímabili þar sem skólastarf hefur verið takmarkað vegna COVID 19 veirunnar er nú loksins að ljúka. Kennsla verður í öllum kennslugreinum en sundkennsla hjá 5.-9. bekk verður í Kópavogslaug því verið er að gera við útilaugina í Salalaug. Kennsla í íþróttum verður úti.
Fjöldatakmarkanir verða ekki lengur í gildi í grunnskólum og nemendur geta farið á milli hópa og nýtt öll svæði skólans. Fjöldatakmarkanir gilda áfram um  fullorðna, 2 metra fjarlægð og hámark 50 í hóp. Þessar reglur hafa áhrif á skólastarfið í Lindaskóla er varðar mötuneyti nemenda og kaffistofur starfsmanna.

Foreldrar þurfa að nesta börnin sín í hádeginu því ekki verður hægt að elda mat í eldhúsinu vegna þrengsla.  Nemendum í 1.-7. bekk gefst kostur á því að vera í ávaxtahressingu að morgninum eins og áður.
Nemendur í 8.-10. bekk geta keypt hafragraut og bakkelsi frímínútunum kl. 10:20-10:40 eins og áður.
Allir nemendur borða hádegismat (nesti að heiman) í mötuneytinu og þar hafa þeir aðgang að örbylgjuofnum og samlokugrillum.  Athugið að nemendur hafa ekki aðgang að kæliskápum.

Vegna þess að áfram er í gildi neyðarstig almannavarna er mikilvægt að gera ýmsar ráðstafanir til til að koma í veg fyrir að smit berist inn í skólann. Huga þarf vel að hreinlæti s.s. handþvotti og sótthreinsum. Gestakomur verða ekki leyfðar í húsnæði skólans og biðjum við foreldra um að hafa samband í síma eða tölvupósti í staðinn.
Einnig er mælst til þess að skólar og foreldrafélög skipuleggi ekki fjölmennar samkomur út þetta skólaár.  Við munum upplýsa foreldra fljótlega með hvaða hætti við ljúkum skólaárinu er varðar vorferðir, skólaslit og útskrift.

Starfsemi Demantabæjar verður einnig með hefðbundnum hætti.

Áfram verða í gildi sóttvarnarráðstafanir sem snúa að hreinlæti, handþvotti og sótthreinsun.
Svör við algengum spurningum um áhrif breytinganna á ýmsar hliðar skólastarfsins má finna á slóðinni mrn.is/skolastarf.

Eins og þið vitið eflaust munu starfsmenn Eflingar (skólaliðar) fara í verkfall að nýju þriðjudaginn 5. maí kl. 12:00 ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma. Í Lindaskóla eru skólaliðar sem starfa í mötuneytinu og við þrif. Verkfall mun því hafa hafa áhrif á starfsemina hjá okkur og getur komið til þess að skerða þurfi skóladag nemenda eða jafnvel loka skólanum seinni partinn í næstu viku eða í vikunni á eftir ef ekki verður búið að semja. Við munum senda ykkur póst á mánudaginn ef það stefnir í verkfall og hvernig skólastarfi verði hagað.

Okkar frábæra starfsfólk hefur af miklum krafti haldið uppi öflugu skólastarfi þrátt fyrir mjög breyttar aðstæður.

Við í Lindaskóla þökkum foreldrum og nemendum skilning, stuðning og mikla hvatningu undanfarnar vikur. Það hefur verið okkur mikill styrkur í þessum óvenjulegu aðstæðum.

Það verður skemmtilegt að fá alla nemendur okkar aftur í skólann og við hlökkum mikið til.

Góðar kveðjur,
Guðrún, Hilmar, Inga Birna og Margrét

Posted in Fréttaflokkur.