Skipulag 14.-17. apríl

Vika þrjú í samkomubanni er nú liðin og páskafrí framundan. Skólastarfið hefur verið ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt þrátt fyrir þær takmarkanir sem eru. Kennarar skólans hafa mætt breyttum aðstæðum af mikilli útsjónarsemi og nú er tæknin svo sannarlega í okkar liði.

Í dag, föstudag,  vorum við með páskabingó hjá nemendum í 1.-4. bekk, hver hópur í sinni stofu og stjórnendur stýrðu bingóinu í gegnum fjarfundakerfið google meet.   Hjá fjarnámsnemendum í 5.-10. bekk var spurningakeppni  og  þátttakan var mjög góð.  Skipt var í tvo hópa, miðstig og elsta stig. Þrír vinningar voru í boði fyrir hvert stig. Já, það er gaman saman hjá okkur Lindaskólafólkinu.

Búið er að framlengja samkomubannið til 4. maí þannig að fyrirkomulagið, vikuna eftir páska, verður með sama hætti og nú er. Í lok þeirrar viku tökum við stöðuna á ný þar sem aðstæður hjá okkur, eins og í þjóðfélaginu, breytast hratt.

1.-4. bekkur verður í skólanum frá kl. 8:10/8:20 -12:00.
5.-10. bekkur verður í fjarnámi í samráði við sína kennara.

Okkur finnst mikilvægt að yngstu börnin mæti í skólann og haldi sinni rútínu eins og hægt er í þessum aðstæðum. Við getum betur mætt þeim eldri með verkefnum og samskiptum í spjaldtölvunum. Kennarar senda verkefni, kennslumyndbönd og hitta nemendur á fjarfundum þar sem þeir geta leiðbeint nemendum eins og kostur er.

Við óskum ykkur gleðilegra páska og vonum að þið hafið það sem allra best í fríinu.

Kær kveðja,
Guðrún, Hilmar, Inga Birna og Margrét.

Posted in Fréttaflokkur.