Skólaslit

26. skólaslit Lindaskóla voru haldin þriðjudaginn 6. júní.  Nemendur í 1. – 9. bekk mættu fyrst í bekkjarstofur og kvöddu kennarana sína áður en þeir héldu niður í íþróttasal skólans.

Dagskráin var fjölbreytt og settu nemendur sinn svip á hana. Kór Lindaskóla söng nokkur lög og nemendur í 2. bekk sungu lag Lindaskóla við undirleik Ívars Sigurbergssonar, tónmenntakennara en hann samdi jafnframt lagið og textann.  Guðrún Halldórsdóttir, skólastjóri, flutti ávarp og fór létt yfir skólastarf vetrarins. María Guðnadóttir, íþróttakennari tók við og afhenti fulltrúa Umhyggju félags langveikra barna peningagjöf sem safnaðist í Lindaskólasprettinum, áheitahlaupi nemenda. María kvaddi viðstadda en hún lætur af störfum núna í vor. Kraftur og elja Maríu á íþróttasviðinu er aðdáunarverð, hún hefur lagt línurnar fyrir árangur nemenda í Skólahreysti auk þess að halda utan um Lindaskólasprettinn og  átakið Göngum í skólans svo eitthvað sé nefnt.

Guðrún skólastjóri kvaddi einnig viðstadda en hún lætur af störfum eftir 10 ára farsælt starf sem skólastjóri og þar áður aðstoðarskólastjóri. Við í Lindaskóla þökkum Guðrúnu og Maríu fyrir gott og gefandi samstarf og óskum þeim og ykkur gæfu og gengis í sumar.

Að loknum skólaslitum tók vorhátíð foreldrafélagsins  við, hátíðin tókst gríðarlega vel. Eins og hefð er fyrir hófst fjáröflun verðandi 10. bekkinga á vorhátíðinni með sölu á ýmsu góðgæti.

 

Posted in Fréttaflokkur.