Nemendur í textílsmiðju sauma til góðs

Í upphafi skólaárs fékk fyrsti hópur í Textílsmiðju 8. bekkjar val um hvernig tímum smiðjunnar yrði varið. Annars vegar að vinna frjálst verkefni og hins vegar að vinna í pörum að góðgerðarverkefni, sem hefur fallið vel í nemendur og völdu margir að leggja sitt af mörkum í þágu góðs málefnis.

Góðgerðarverkefnið hefur farið ákaflega vel af stað en föstudaginn 11. nóvember afhenti fráfarandi textíl-hópur afrakstur vinnu sinnar þegar Guðrún Þóra, sem sinnir fjáröflun fyrir Sorgarmiðstöð, tók við gjöfinni til félagsins þegar hún heimsótti nemendur í skólann.

Það var Sorgarmiðstöð sem hafði samband við skólann og óskaði eftir hjálparhönd, hvort nemendur skólans hefðu áhuga á að styðja við fjáröflun félagsins með því að sauma grjónapoka úr efni sem fellur til gefa félaginu sem selur grjónapokana í vefverslun sinni í fjáröflunartilgangi. Sorgarmiðstöð er samstarfsverkefni fjögurra grasrótarfélaga á sviði sorgarúrvinnslu og er starfsemi alfarið rekin á styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Það eru félögin dögun, Birta, Ljónshjarta og Gleym mér ei sem heyra undir hatt Sorgarmiðstöðvar og sinna fræðslu, stuðning og ráðgjöf til syrgjenda og þeirra sem vinna að velferð syrgjenda eftir ástvinamissi, þeim að kostnaðarlausu.  Grjónapokarnir sem nemendur saumuðu veita syrgjendum hlýju og minnkar einnig streitu í öxlum sem er algengur fylgifiskur áfalla.

Við erum verulega stolt af velvild okkar góðu nemenda í garð þessa verkefnis, sem og af afrakstri vinnu þeirra og viljum eindregið hvetja alla þá sem hafa tök á að veita verkefninu mikilvægan stuðning – til dæmis með því að næla sér í grjónapoka – en hann fæst í vefverslun félagsins: https://sorgarmidstod.is/verslun/

Posted in Fréttaflokkur.