Öll íþróttakennsla utandyra til 19. október

Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafa lagt áherslu á að stöðva íþróttir og líkamsrækt á höfuðborgarsvæðinu næstu 2 vikurnar til að koma í veg fyrir hópamyndun, nánd og blöndun aðila úr ólíkum áttum sem eykur líkur á dreifingu smits og hugsanlega auknu álagi á heilbrigðiskerfið.

Skóla- og íþróttasvið allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa í samráði við almannavarnir höfuðborgarsvæðisins tekið þá ákvörðun að stöðva allt íþróttastarf og kennslu sem fram fer innandyra á þeirra vegum frá og með deginum í dag til 19. október. Öll íþróttakennsla mun fara fram utandyra að teknu tilliti til ítrustu sóttvarna. Sundlaugar verða enn fremur lokaðar fyrir almenning og skólasund fellur niður.
Með þessum aðgerðum er verið að sýna samstöðu með aðgerðum ÍSÍ varðandi takmarkanir á íþróttahaldi á höfuðborgarsvæðinu.

Verið er að slá skjaldborg um börn, starfsfólk grunnskóla og skólastarf. Andstæðingurinn er veiran og það er mikilvægt að íbúar höfuðborgarsvæðisins sýni samstöðu og leggi allt á vogarskálarnar til að fækka smitum.

Posted in Fréttaflokkur.