Lestrarverkefnið Tími til að lesa og rafbókagjöf

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur sett af stað lestrarverkefni fyrir þjóðina. Börn og fullorðnir eru hvött til að nýta til lesturs þann tíma sem gefst við núverandi aðstæður.

Lestrarverkefnið kallast Tími til að lesa. Árangurinn er mældur í tíma, þar sem Íslendingar eru hvattir til að skrá allan sinn lestur á vefsíðunni timitiladlesa.is. Þar geta þátttakendur líka fylgst með sameiginlegum lestri þjóðarinnar frá degi til dags. Á næstu fjórum vikum munu þar safnast upp ýmsar upplýsingar um lestur, hugmyndir að lesefni fyrir ólíka aldurshópa, hvatningarmyndbönd frá rithöfundum og öðrum sem segja okkur hvað og hvar þeim finnst gaman að lesa.

Verkefnið stendur til 30. apríl og stendur til að fá afraksturinn skráðan í Heimsmetabók Guinness. 

Starfsmenn Lindaskóla hvetja alla til að taka þátt í verkefninu.

Einnig viljum við benda lesendum á að Þorgrímur Þráinsson rithöfundur hefur gefið þjóðinni átta rafbækur sem hægt er að sækja á Emma.is. Bækurnar höfða til nemenda í 1. – 10. bekk og jafnvel eldri lesendum. Með bókargjöfinni er Þráinn að hvetja krakka og unglinga til aukins yndislesturs.

Gott framtak hjá Rafbókasafninu, emma.is og Þorgrími.

Posted in Fréttaflokkur.