Lindaskóli með silfur á Íslandsmóti barna-og grunnskólasveita

Helgina 11. – 13. mars var sannkölluð skákmótaveisla. Á föstudeginum var Íslandsmót Barnaskólasveita 1.-3. bekkjar þar sem Lindaskóli sendi eitt lið til leiks með þeim Viktori Elíasi, Hákoni Harra, Róberti Leó og Kristjáni Helga. Spennan var gríðarleg fyrir lokaumferðina, þar sem Lindaskólasveitin var í 3. sæti. Sveitin lenti á móti sigurliði mótsins, Smáraskóla, þar sem Lindaskóli tapaði 3-1. Heilt yfir stóð liðið sig virkilega vel, endaði liðið í 5. sæti af 17.

Á laugardeginum fór fram Íslandsmót Barnaskólasveita 1.-7. bekkjar. Alls tóku 19 lið þátt í mótinu. Lindaskóli lék þar fram tveimur virkilega öflugum sveitum skipaðum 4. og 5. bekkingum. Í A-liðinu voru Sigurður Páll, Birkir H., Engilbert Viðar og Örvar Hólm. Í B-liðinu voru Nökkvi Hólm, Viktor Elías, Ívar Pálmi og Emil Máni. Mótið reyndi virkilega á taugar keppenda og liðstjóra, sem börðust fyrir Íslandsmeistaratitlinum. Helstu keppinautur voru Vatnsendaskóli sem hefur sigrað mótið s.l. tvö ár með nær óbreyttu liði. Í þriðju umferð lenti A-lið Lindaskóla á móti sigurliði Vatnsendaskóla. Viðureignin var hnífjöfn þar til í blálokin þar sem Vatnsendaskóli tók yfirhöndina og sigraði 3-1. Úrslitin gerðu það að verkum að Lindaskóli þurfti að treysta á að Vatnsendaskóli tapaði a.m.k. 2 vinningum gegn öðrum liðum. Það raungerðist ekki og endaði því Vatnsendaskóli í fyrsta sæti með 30 vinninga af 32 mögulegum. Lindaskóli hampaði öðru sætinu með 28,5 vinninga og í því þriðja var Lindaskóli B- sveit með 19 vinninga. Frábær árangur á virkilega öflugu móti.

Íslandsmót Barnaskólasveita 4.-7. bekkur 2. sæti

Á sunnudeginum fór fram Íslandsmót Grunnskólasveita 1.-10. bekkur. Þar mætti til leiks sama lið og á laugardeginum ásamt Nökkva Hólm varamanni. Keppnin var æsispennandi alveg til lokaumferðar þar sem Vatnsendaskóli, Lindaskóli og Landakotskóli áttu möguleika á titlinum. Að lokum sigraði Vatnsendaskóli naumlega með 0,5 vinningi betur en Lindaskóli sem lenti í öðru sæti. Til gamans má geta að lið Lindaskóla á eftir 5 ár á þessu móti, þar sem liðið er skipað virkilega ungum og efnilegum skákmönnum úr 4. og 5. bekk.

Íslandsmót Grunnskólasveita 1.-10. bekkur

Hópmynd Íslandsmót Barnaskólasveita 1.-7.bekkur A- og B- lið.

Posted in Fréttaflokkur.