Sálfræðiráðgjöf í boði fyrir 10. bekkinga

Umboðmaður barna hefur bent á mikilvægi þess að börn hafi gott aðgengi að sálfræðiþjónustu. Ein af aðgerðum Kópavogsbæjar við innleiðingu barnasáttmála er að tryggja nemendum í 10. bekk ráðgjöf hjá sálfræðingi. Í almennum athugasemdum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um 12. gr. Barnasáttmálans kemur einmitt fram að tryggja eigi börnum rétt til heilsufarsráðgjafar og aðstoðar í trúnaði án samþykkis foreldra, óháð aldri barns, þegar þörf er á vegna öryggis eða velferðar barns.

Markmið ráðgjafarviðtala er að nemendur fái tækifæri til að ræða við sálfræðing með skömmum fyrirvara á auðveldan hátt. Í viðtölum fá sálfræðingar upplýsingar um vanda nemenda, veita ráðgjöf og leita lausna í samvinnu við nemendur.

Samhliða viðtölum veita sálfræðingar fræðslu um geðrækt fyrir árganginn þar sem þeir kynna starfið sitt og upplýsa nemendur um viðtölin sem standa þeim til boða.

Sálfræðingar eiga að gæta trúnaðar við nemendur en leitast eftir samvinnu við foreldra og aðra sem tengjast nemanda með samþykki nemanda nema að sérstök ástæða sé til annars. Ef sálfræðingur telur þörf á frekari þjónustu eftir viðtal við nemanda s.s. nánari greiningu eða meðferð, þarf hann að fá samþykki nemanda til að ræða við foreldra og skóla sem sækja síðan um skólaþjónustu á hefðbundinn hátt. Sálfræðingar bera einnig sérstaka tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum og mikilvægt að þeir upplýsi nemendur sem koma í viðtöl til þeirra um það. Í flestum tilvikum er líka æskilegt að upplýsa nemendur þegar sálfræðingar hyggjast senda tilkynningu til barnaverndarnefndar.

Posted in Fréttaflokkur.