Útskrift 10. bekkjar – Tímamót og kveðjustund

Það var hátíðleg stemning í Lindaskóla í dag þegar 10. bekkur kvaddi eftir tíu ár í grunnskólanum. Flestir nemendur hafa verið hér alla sína skólagöngu og því mikilvæg tímamót þegar komið er að kveðjustund.

Við útskriftar athöfnina hélt skólastjóri ræðu og óskaði þessum frábæru krökkum velfarnaðar í komandi verkefnum og þakkaði fyrir undanferin ár. Nemendur fengu afhent námsmatið sitt og nokkrir nemendur fluttu áhrifaríkar ræður þar sem þeir rifjuðu upp minningar úr skólagöngunni og horfðu björtum augum til framtíðar. Fulltrúi foreldra flutti einnig hjartnæma kveðju og þakkaði skólasamfélaginu fyrir samfylgdina. Tvær hæfileikarríkar stúlkur fluttu tónlistaratriði og var unun að hlusta á þær. Þá fluttu kennarar kveðjulag til útskriftarnemenda og sendu þeim góðar óskir út í næstu verkefni lífsins.

Að lokinni athöfn gæddu gestir sér á glæsilegum veitingum sem nemendur sjálfir ásamt foreldrum buðu uppá.   

Við óskum útskriftarnemendum innilega til hamingju og velfarnaðar á komandi árum.

Stjórnendur, kennarar og starfsfólk Lindaskóla

Posted in Fréttaflokkur.