Skipulag 27. – 30. apríl

Þá er komið að síðustu viku í samkomubanni. Við finnum að fólk er orðið óþreyjufullt um að allt verði eins og áður en við verðum að hafa í huga mikilvægi þess að fylgja eftir fyrirmælum almannavarna í einu og öllu.

Skólahald næstu viku verður með svipuðum hætti og hefur verið síðustu vikur.

1.-4. bekkur verður í skólanum frá kl. 8:10/8:20-12:00
Frístund er fyrir nemendur í 1. bekk frá kl. 12:00-16:30
5. -10. bekkur verður í fjarnámi í samráði við sína kennara.
6. bekkur verður í skólanum þriðjudag og miðvikudag frá kl. 8:30-10:20.

Við minnum á fjarkennsluvefinn fyrir nemendur í 1.-5. bekk  á heimasíðu skólans.
Kennarar í 5.-10. bekk senda sínum nemendum upplýsingar um námið og fjarfundi. Það er mjög mikilvægt að nemendur mæti á þá fjarfundi/fjarpróf sem kennarar boða.

Mánudaginn 4. maí taka gildi nýjar sóttvarnareglur en þær heimila skólastarf með hefðbundnum hætti en áfram verða í gildi sóttvarnarráðstafanir sem snúa að hreinlæti og sótthreinsun.
Fjöldatakmarkanir verða ekki lengur í gildi í grunnskólum. Nemendur geta farið á milli hópa og nýtt öll svæði sem skólastarfið kallar á. Fjöldatakmarkanir gilda enn um fullorðna, 2 metra fjarlægð og hámark 50 í hóp. Þessar reglur hafa áhrif á skólastarfið í Lindaskóla með þessum hætti:

Vegna þrengsla í eldhúsi verður ekki hægt að elda mat þannig að foreldrar þurfa að nesta börnin í hádeginu. Nemendum í 1.-7. bekk gefst kostur á því að vera í ávaxtahressingu að morgninum eins og áður.
Nemendur í 8.-10 bekk geta keypt hafragraut og bakkelsi frímínútunum kl. 10:20-10:40 eins og áður.
Allir nemendur borða hádegismat (nesti að heiman) í mötuneytinu og þar hafa þeir aðgang að örbylgjuofnum og samlokugrillum.  Athugið að nemendur hafa ekki aðgang að kæliskápum.

Áfram ber okkur að takmarka gestakomur í skólana og mælst er til að skólar og foreldrafélög skipuleggi ekki fjölmennar samkomur út þetta skólaár.  Við erum því að skoða með hvaða hætti við ljúkum skólaárinu hvað varðar vorferðir, skólaslit og útskrift. Við sendum ykkur upplýsingar um það þegar nær dregur.

Starfsemi Demantabæjar kemst í hefðbundið horf 4. maí og mun Kristín Lillý forstöðumaður senda upplýsingar þegar nær dregur.
Með von um að þessi síðasta vika gangi vel og mikið hlökkum við til að hitta nemendur okkar.

Kær kveðja,
Guðrún, Margrét, Hilmar og Inga Birna

Posted in Fréttaflokkur.