Menningardagar í Lindaskóla

Menningardagar Lindaskóla verða 16.-20. desember.  Setning þeirra hefst með ávarpi skólastjóra og opnun listsýninga. Að þessu sinni sýnir listamaðurinn og rithöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir verk sín. Bergrún Íris sýnir myndlist og barnabækur sem hún hefur samið og myndskreytt. Einnig kemur Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri Listasafns ASÍ með tvö listaverk úr safneigninni, verk eftir Louisu Matthíasdóttur og eftir Jón Engilberts. Elísabet segir nemendum í 3.-4. bekk frá listaverkunum og þeir vinna svo verkefni sem felur í sér að búa til örsögu og teikna litla mynd með henni.
Á yngsta- og miðstigi verður kakóhús/kökuhús í einni bekkjarstofunni. Í kakóhúsinu fá nemendur kakó og nemendur 7. bekkja lesa upp jólasögur fyrir skólafélaga sína. Nokkrir rithöfundar lesa upp úr nýjum bókum sínum:  Sigríður Etna Marinósdóttir les upp úr bók sinni Etna og Enok hitta jólasveinana, Bjarni Fritzson les upp úr bók sinni Orri óstöðvandi: Hefnd glæponanna og Bergrún Íris Sævarsdóttir les upp úr bók sinni Langelstur að eilífu.
Nemendur í 1.-7. bekk fara í menningarferð í Lindakirkju.

Á elsta stigi verða ýmsir menningartengdir viðburðir á dagskrá s.s. ferðir í Safnahúsið, kaffihús, Kópavogskirkju og heimsókn í miðbæ Reykjavíkur. Í miðbænum taka nemendur þátt í leiknum ,,Vættirnar í 101″.  Einnig verða ýmsir dagskrárliðir í skólanum s.s. fjármálafræðsla, fræðsla frá Þorgrími Þráinssyni, ýmsar listasmiðjur og fótbolta- og brennómót í Smáranum.

Aðrir viðburðir eru stóra jólasamstund, stofu- og jólaböll.

Foreldrar eru hvattir til að koma í Lindaskóla á menningardögunum og skoða sýninguna í miðrými skólans á 2. hæð. Hún verður opin daglega frá kl. 8:00-16:00 fram að hádegi föstudaginn 20. desember.

Hér má sjá dagskrá menningardaganna:

Posted in Fréttaflokkur.