Saga Lindaskóla

Lindaskóli var stofnaður árið 1997 og hófu störf þá um haustið fimm kennarar, tveir skólaverðir, ritari
og starfsmaður dægradvalar ásamt skólastjóra. Fyrsta árið fékk skólinn inni í skólanhúsnæði
Smáraskóla við Dalsmára 1. Þar var þó enn verið að bæta við skólahúsnæðið svo fyrstu tvær
starfsvikur skólans fór kennsla fram í félagsaðstöðu íþróttafélagsins Breiðabliks. Um miðjan
september var svo flutt inn í Smáraskóla þar sem Lindaskóli hafði afnot af 6 kennslustofum ásamt
tveimur skrifstofum. Nemendur skólans voru 44 þá um haustið í fjórum bekkjardeildum í 1. – 3. bekk.
Var nemendum ekið í skólann – og heim – þennan vetur í skólabíl.

Þann 3. október 1997 var fyrsta skóflustungan tekin að nýju skólahúsnæði Lindaskóla og fluttist
starfsemin þangað haustið 1998. Þá var tekin í notkun fyrsta álman (nú Hús 3) af þeim fjórum sem
áætlaðar voru. Í henni eru 12 kennslustofur og tvær skrifstofur. Nemendur skólaárið 1998-1999 voru
um 150 í 9 bekkjardeildum í 1.-6. bekk.

Haustið 1999 var byrjað að kenna í nýtsteyptri álmu (nú Hús 1). Framkvæmdum var þó engan vegin
lokið og iðulega kennt í steypuryki, undir dynjandi hamarshöggum. Sama haust var tengibygging milli
húsanna steypt og stjórnendur fóru að huga að heimasíðu skólans. Í byrjun ársins 2000 er
tengibyggingin (nú Miðrými) komin vel á veg og heimasíða skólans væntanleg á veraldarvefinn.

Á haustmánuðum2001 eignaðist Lindaskóli sitt eigið merki. Merkið var hannað hjá auglýsingastofunni
Nonni og Manni og er hönnuður þess Örn Smári Gíslason. Örn Smári lýsir verkinu þannig: „Hugsunin
með merinu er lind; lind sem tákn fyrir hið hreina og tæra og sem uppspretta fróðleiks. Út frá lindinni
verður dropaformið til, en það er grunnurinn að teikningunni og endurspeglar lífið og léttleikann í
skólastarfinu. Litur merkisins er blár, í nokkrum tónum og letrið er grátt til þess að andstæður milli
forms og leturs verði ekki og miklar. Litið var til „Dansins“ eftor Henry Matisse við hönnum
merkisins.“

Í febrúar 2001 er farið að ræða um samvinnu Bókasafns Kópavogs og skólasafns Lindaskóla.
Sameining þessi varð svo að veruleika síðar sama ár.

Í ágúst 2001 er tekið til notkunar íþróttahús Lindaskóla, tvær lausar kennslustofur eru settar á
skólalóðina þar sem dægradvölin fær athvarf og bókasafnið fær sitt pláss í húsinu. Lindaskóli fer
einnig að huga enn betur að umhverfinu og byrjar vinnu eftir stefnu grænfánans með það að
markmiði að flagga honum innan tveggja ára. Lindaskóli hefur verið þátttakandi í grænfánaverkefni
Landverndar frá því 6. júní 2001 og hefur flaggað grænfánanum fimm sinnum frá árinu 2001.

Á þessum árum stunda afar margir nemendur nám við skólann og mikil orka fer í að finna
húsnæðislausnir. Árið 2004 fæst leyfi til að byggja fjórar kennslustofur til viðbótar við skólann og er
það húsnæði afhent 10. desember sama ár. Þá er hætt að vera með bekkjarkennslu í lausu
kennslustofunum en þær áfram notaðar til kennslu í vali unglingadeildar og í Dægradvöl.

Eftir 2007 fer nemendum að fækka og árið 2012 eru allar lausu kennslustofurnar teknar af
skólalóðinni og dægradvölin sem nú heitir Demantabær, fær afnot af kennslustofum inni í skólanum.

Starfendarannsóknir byrjuðu hér sem þróunarverkefni árið 2001. Lindaskóli hefur fjörum sinnum
tekið starfendarannsóknir til framkvæmda sem liðu í innra mati með góðum árangri. Árið 2003 var
Vigfús Hallgrímsson leiðbeinandi og var sjónum beint að heimavinnu á unglingastigi og virkni og
árangri foreldraviðtala. Næsta verkefni var unnið veturinn 2004-2005. Helle Plauborg starfsmaður
Kleo stofnunarinnar í Kaupmannahöfn var fengin til að stýra verkefninu. Tekin voru fyrir verkefnin
„Hvað gerir kennarinn þegar nemendur eru virkir“. Einnig var skoðaður munur á hópvinnu og
einstaklingsvinnu. Veturinn 2005-2006 var áfram haldið þar sem rannsóknir höfðu ekki skilað
tilætluðum árangri vegna verkfalls kennara. Sami leiðbeinandi var fenginn til liðs við skólann.
Rannsóknarspurningarnar að þessu sinni voru: „Hvernig getum við hvatt nemendur til að bera meiri
ábyrgð á námi sínu? Hvernig nýta 5. bekkingar sér stærðfræðikunnáttu í verklegum greinum?
Fundarstjórn og skilvirkni deildarfunda. Athugun á sérkennslu tveggja nemenda, annars vegar
lestrarkennslu og hins vegar stærðfræði. Skólaárið 2011-2012 er enn haldið af stað og að þessu sinnu
var það Birna María Svanbjrönsdóttir lektor við Háskólann á Akureyri sem leiðbeindi hópnum. Mörg
viðfangsefni voru skoðuð en öll undir yfirskriftinni „Fjölbreyttar kennsluaðferðir“.

Skólaárin 2006-2008 var unnið að þróunarverkefni um enskunám og útivist í 1.-4. bekk. Markmiðið
var að vera með markvisst skipulag á viðbóta enskukennslu og samþættingu íþrótta/hreyfifærni og
útikennslu í 1. -4. bekk á tímabilinu 2006-2008. Verkefnið var styrkt af Kópavogsbæ, Norvik og
Ránarborg.

Skólaárin 2009-2012 var þróunarverkefni sem var kallað lestrarátak í 2.-7. bekk Lindaskóla.
Verkefnisstjóri var Elín Richards. Markmið verkefnisins var að gera góða lestrarkennslu enn betri og
efla áhuga nemenda á lestri. Til þess skyldu notaðar ýmsar „nýjar“ kennsluaðferðir og þær þróaðar og
verkefnin aðlöguð á ferlinum. Verkefnið var styrkt af Sprotasjóði.
Skólaárið 2015-2016 var unnið þrónunarverkefni sem bar heitið „Útinám í skóla- og frístundastarfi.
Samstarf grunnskóla, útilífsmiðstöðvar og háskóla um þróun útináms. Verkefnisstjóri var Anna
Halldórsdóttir. Markmið verkefnisins var að efla útinám í Lindaskóla. Verkefnið var styrkt af
Sprotasjóði.

Menningardagar eru haldnir síðustu viku fyrir jól ár hvert. Ákveðið var á fyrsta starfsári Lindaskóla að
hafa menningardaga í skólanum og hefur skapast sterk hefð um þá síðan. Hugmyndin var að hafa
rólega stund með nemendum síðustu daga fyrir jól og lagt var upp með að njóta menningar. Hefð
hefur skpast um að fá listamenn til að sýna verk sín í skólanum. Á vordögum 2013 hlaut Lindaskóli
verðlaunin Kópurinn fyrir það verkefni en Kópurinn er viðurkenning skólanefndar fyrir þau verkefni
sem stuðla að nýbreytni og framþróun í skólastarfi. Höfundar verkefnisins eru Gunnsteinn Sigurðsson
skólastjóri Lindaskóla og Kristín Andersen myndlistarkennari.

Nemenda- og foreldraviðtöl fara fram utan kennslutíma tvær vikur á ári og geta foreldra óskað eftir
viðtalstíma einhvern af þeim dögum í vikunni sem þeim hentar best. Með þessu móti teljum við að
betur sé komið til móts við foreldra en með hefðbundnum foreldradegi eins og tíðkast í flestum
skólum. Þetta fyrirkomulag hefur líkað ákaflega vel enda er mæting í viðtöl 100% og samskipti
heimilis og skóla með miklum ágætum.

Í Lindaskóla hefur verið öflug íþróttakennsla og nemendur skólans einnig kraftmiklir í íþróttaiðkun
utan skóla. Skólahreysti er ein af þeim keppnum sem Lindaskóli hefur tekið þátt í frá upphafi þeirrar
keppni.

Hreystivöllur var reistur við skólann vorið 2014.

Skólastjórar Lindaskóla frá upphafi skólans:

1997 – 2009 Gunnsteinn Sigurðsson

2009 – 2010 Sigfríður Sigurðardóttir

2010 – 2012 Gunnsteinn Sigurðsson

2012 – 2023 Guðrún G. Halldórsdóttir

2023 – Margrét Ármann