Með grunnskólalögunum frá 1995 var mat á skólastarfi lögfest. Í 35. gr. grunnskólalaga frá
2008 er fjallað almennt um mat og eftirlit með gæðum grunnskólastarfs. Í 36. gr. er fjallað
um innra mat skóla og þar kemur fram að hver grunnskóli eigi að meta með kerfisbundnum
hætti árangur og gæði skólastarfs með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því
sem við á. Þar segir að grunnskólar eigi að birta opinberlega upplýsingar um innra mat sitt,
tengsl þess við skólanámskrá og áætlanir um umbætur. Mat á skólastarfi er ein leið til
umbóta í skólum.
Unnið hefur verið að sjálfsmati Lindaskóla á markvissan hátt frá árinu 2000. Upplýsingar um
sjálfsmatið er að finna á heimasíðu skólans. Mat á skólastarfi Lindaskóla fer fram með ýmsum
hætti, s.s. með ýmis konar námsmati, frammistöðumati, könnunum um líðan og samskipti og
með matstækinu Skólapúlsinum. Einnig taka nemendur þátt í ýmsum stærri utanaðkomandi
könnunum og rannsóknum s.s. frá Rannsókn og greiningu. Sjálfsmatsteymi Lindaskóla gerir
matsáætlun til nokkurra ára. Síðasta matsáætlun gilti fyrir árin 2015-2018 og er
sjálfsmatsteymið nú að vinna að nýrri áætlun sem mun gilda fyrir árin 2018-2022. Síðustu
matsáætlun má finna í fylgiskjölum. Þar má sjá hvaða þættir eru skoðaðir, hvenær á
matstímanum, hverjir taka þátt í matinu í hvert skipti og hverjir bera ábyrgð á framkvæmdinni.
Matsáætlanir eru endurskoðaðar reglulega og breytt ef ástæða þykir til.
Námsmat í Lindaskóla er fjölbreytt. Þar getur verið um að ræða verkefnavinnu, lesskimanir,
símat í ýmsum námsgreinum og próf. Námsmatsstofunun leggur fyrir samræmd
könnunarpróf á haustin í íslensku og stærðfræði fyrir nemendur í 4. og 7. bekk. Þetta er í
þriðja skiptið sem þau eru lögð fyrir með rafrænum hætti. Samræmd könnunarpróf í 9. bekk
verða lögð fyrir í mars. Nemendur í 9. bekk taka próf í íslensku, stærðfræði og ensku.
Námsmat hjálpar kennurum að vinna með nemendur, sjá hvar styrkleikar þeirra eru og
veikleikar, hvar þarf að efla áherslur í kennslu og hvert skal stefna.
Í foreldra- og nemendaviðtölum á haustin er farið yfir stöðu nemenda og líðan. Ekki er
hefðbundið námsmat fyrir viðtölin. Þeir kennarar sem koma að viðkomandi bekk skrifa um
barnið inn á ákveðið form innan google docs um hvernig gengur með hvern nemenda sem
eingöngu umsjónarkennari getur svo séð og rætt um á foreldrafundinum með foreldrum.
Á hverju hausti skipuleggur námsráðgjafi kannanir um líðan og samskipti sem
umsjónarkennarar leggja fyrir. Könnunin er tekin á netinu og birtast niðurstöður um leið. Þar
er hægt að sjá stöðu þessara mála í hverjum bekk. Niðurstöðurnar eru síðan nýttar í vinnu
með nemendahópinn til að efla hann og styrkja.
Skólapúlsinn er matstæki þar sem spurningar eru lagðar fyrir nemendur í 6. – 10. bekk,
foreldra og starfsmenn. Skólapúlsinn veitir skólastjórnendum og skólaskrifstofum áreiðanleg,
langtímamiðuð, samanburðarhæf og aðgengileg gögn um mikilvæga þætti í skólastarfinu.
Þættirnir tengjast virkni nemenda og líðan þeirra í skólanum og um skóla- og bekkjaranda.
Niðurstöður um stöðu nemenda eru bornar saman við niðurstöður fyrri mælinga í skólanum
og við landsmeðaltal sem gefur skýrar vísbendingar um þróun mála í skólanum og stöðu
nemenda miðað við nemendur í öðrum skólum í landinu. Lindaskóli gerir nemendakönnun á
hverju skólaári, foreldrakönnun og starfsmannakönnun annað hvert ár. Á þessu skólaári
verður gerð könnum meðal nemenda og foreldra. Skólapúlsinn er notaður til að bæta innra
starf skólans. Skólapúlsinn er sjálfvirkt kannanakerfi sem tekur bæði til söfnunar og
úrvinnslu gagna. Val á spurningakvörðum tekur mið af íslenskum aðstæðum, þar er byggt á
nýjum upplýsingum sem fengist hafa með PISA rannsóknunum á Íslandi. Yfir tíma safnast
mikið magn dýrmætra upplýsinga sem rannsakendur á sviði menntamála geta nýtt. Slíkar
niðurstöður draga fram sérkenni skólans og geta upplýst á hvaða sviðum skólinn þarf að
beita sér til að bæta skólastarfið og auka bæði árangur og vellíðan nemenda sinna.
Á heimasíðu Lindaskóla má finna ýmsar skýrslur um innra mat Lindaskóla. Nýjustu
skýrslurnar eru; Sjálfsmatsáætlun Lindaskóla 2015-2018, Áfangaskýrsla; Sjálfsmat Lindaskóla
skólaárið 2016-2017 , Sjálfsmat Lindaskóla 2017-18 – Kynning 12. júní 2018 og niðurstöður
úr könnunum Skólapúlsins undanfarin ár.
Haustið 2018 vinnur sjálfsmatsteymi Lindaskóla áfangaskýrslu vegna skólaársins 2017-
2018. Þeir þættir sem ekki koma nægilega vel út í innra mati skólans eru settir inn í
umbótaáætlun. Drög að þeirri áætlun er unnin af öllum starfsmönnum skólans á sérstökum
vinnufundum á vorin. Þeirri vinnu lýkur sjálfsmatsteymi skólans við. Með þessu
vinnufyrirkomulagi eiga allir starfsmenn hlutdeild í umbótaáætluninni enda eru það þeir sem
þurfa að fylgja henni eftir.
Niðurstöður innra mats Lindaskóla skólaárið 2017-2018 voru mjög góðar bæði í
nemendakönnuninni sem og í starfsmannakönnuninni. Aðeins einn þáttur var marktækt
undir landsmeðaltali og verður unnið með hann sérstaklega þetta skólaár í samræmi við
umbótaáætlun skólans. Sá þáttur snýr að ánægju nemenda að lestri. Til þess að auka ánægju
nemenda af lestri verður m.a. lögð áhersla á fleiri og fjölbreyttari verkefni sem tengjast lestri,
að byrja alla skóladaga á lestri í öllum árgöngum, kynna bók mánaðarins í samstarfi við
skólabókasafnið, nýta spjaldtölvur sem tæki til lestrar og að kennarar lesi alltaf ,,nestissögu“.
Sjálfsmatsteymi Lindaskóla er skipað fimm starfsmönnum skólans. Skólaárið 2018-2019 er
það skipað, Auðbjörgu Njálsdóttur umsjónarkennara, Hilmari Björgvinssyni
aðstoðarskólastjóra, Ragnheiði Líney Pálsdóttur kennara í upplýsingatækni, Sigríði Dóru
Gísladóttur umsjónarkennara og Þórhöllu Gunnarsdóttur námsráðgjafa. Sjálfsmatsteymið
eða fulltrúi þess mun kynna vinnu sína í skólaráði reglulega þar sem fulltrúar foreldra,
nemenda, starfsmanna og grenndarsamfélagsins sitja ásamt skólastjóra. Skólaráði gefst þar
með tækifæri á að koma með athugasemdir eða ábendingar til sjálfsmatsteymisins.