Forvarnardagurinn 2019 var haldinn í flestum grunn- og framhaldsskólum landsins í dag miðvikudaginn 2. október. Lindaskóli hefur verið með frá upphafi og er hann haldinn á hverju hausti og þá er sjónum sérstaklega beint að unglingum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla.
Á Forvarnardeginum ræða nemendur um hugmyndir sínar og tillögur um æskulýðs- og íþróttastarf og fjölskyldulíf sem geta eflt varnir gegn vímuefnum. Þau vinna í hópavinnu og skrá hugmyndir sínar; síðan er svörum safnað saman til að finna samnefnara í hugmyndum þeirra. Þá gefst nemendum sem fæddir eru á árunum 2003 – 2005, kostur á að taka þátt í stuttmyndasamkeppni þar sem þau vinna með þá þætti sem dregið geta úr áhættuhegðun. Skilafrestur í keppninni rennur út að kvöldi 11. nóvember nk. og verðlaun verða veitt fyrir þrjár stuttmyndir: bestu myndina, þá skemmtilegustu og þá frumlegustu. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu.
Embætti landlæknis stendur að deginum í samstarfi við embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Skátana, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greiningu, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samstarf félagasamtaka í forvörnum.
Í tilefni Forvarnardagsins eru myndbönd ætluð foreldrum send út á miðla sem innihalda skilaboð frá Ölmu D. Möller landlækni og Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra meðal annarra. Heimili og skóli og Samfok eiga allan heiðurinn af þessum mynböndum og færum við þeim miklar þakkir fyrir að fá að nýta þau til að minna okkur öll á mikilvægi forvarna.