Í síðustu viku voru þemadagar í Lindaskóla. Að þessu sinni var unnið með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Dagskráin var fjölbreytt, fræðandi og spennandi allt í senn.
Á yngsta stigi 1. – 4. bekk var unnið út frá markmiðum númer eitt og tvö þ.e.a.s. Engin fátækt og Ekkert hungur. Verkefnin voru meðal annars innblásin af Fljúgandi kofforti. Koffortin fljúgandi er heiti á farandverkefni fyrir grunnskólabörn í 1. – 7. bekk í Kópavogi. Í koffortunum eru bækur, verkefni og leikir sem tengjast norrænum barnabókmenntum. Koffortið sem yngsta stigið fékk sinn innblástur frá, gerir Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sérstök skil og eru þau sett í samhengi við sagnaheim H. C. Andersen. Sögurnar sem unnið er með voru Eldfærin, Litla stúlkan með eldspýturnar og Nýju fötin keisarans.
Á miðstigi 5. – 7. bekk var unnið með markmið eins og Líf á landi, Líf í vatni, Heilsu og vellíðan og Frið. Allt stigið vann saman í hópum og fóru nemendur í ratleik í íþróttahúsinu sem tengist heilsu og vellíðan, bökuðu hollt brauð og fræddust um hollustu og heilsu, kynntust hugmyndafræði Yoko Ono um frið á jörðu, lærðu um friðarsúluna og gerðu friðardúfur.
Nemendur á unglingastigi unnu í hópum innan hvers árgangs fyrir sig.
Þeir völdu sér markmið til að vinna með, fjalla um og kynna. Unglingastigið fékk líka heimsókn frá Sorpu og unnið var með mikilvægi þess að lágmarka úrgang, endurnýta og endurvinna. Krakkarnir fengu kynningu á hugtakinu kolefnisspor, fyrir hvað það stendur og reiknuðu út sitt eigið kolefnisspor eftir kúnstarinnar reglum.
Síðast en ekki síst völdu nemendur 4 heimsmarkmið sem þeir vilja vinna að umbótum á í vetur.