Páskakveðja

Síðasta vika fyrir páskafrí hefur verið viðburðarík í skólanum. Miðvikudag og fimmtudag voru þemadagar á öllum stigum en mismunandi viðfangsefni milli stiga.

Yngsta stig var með páskaþema. Nemendum var skipt í fjóra hópa þvert á árganga og fóru á milli jafn margra stöðva þar sem þeir föndruðu meðal annars páskaunga, páskakanínur, páskakörfur og gerðu sameiginlegt listaverk.

Á miðstigi var Eurovisionþema. Nemendum var skipt í hópa þvert á árganga sem fóru á milli stöðva. Þar var meðal annars í boði Kahoot, veggspjaldagerð og dans. Allir nemendur gerðu auk þess stigatöflu til að nota í komandi Eurovision partýum.

Á unglingastiginu voru regnbogadagar. Þar var unnið með fjölbreytileikann og skoðað hvað rúmast undir regnboganum. Nemendur fengu fræðslu frá Sólborgu Guðbrandsdóttur sem hefur haldið utan um verkefnið Fávitar. Efnið má finna á samfélagmiðlum, í sjóvarpi sem og í bók Sólborgar, Fávitar.

Nemendur fengu fræðslu um fjölbreytileikann, samskipti, kynlíf, ofbeldi og samþykki. Einnig komu María og Ingileif sem eru hjón en þær fræddu nemendur um margbreytileika í samböndum og mismunandi fjölskylduform. Nemendur unnu í smiðjum, bjuggu til hinsegin orðabók þar sem hugtök voru útskýrð með orðum eða á myndrænan hátt og sett undir regnbogann. Allir nemendur komu að gerð regnbogans sem prýðir nú miðrými skólans. Boginn er gerður úr notuðum efnivið eins og gallabuxum, gostöppum og öðrum textíl.

Í lok þemadaga var loksins komið að því að hægt væri að halda árshátíð unglingastigs. Hátíðin var á fimmtudagskvöldið og var öll hin glæsilegasta. Nemendur og kennarar mættu prúðbúnir í Gullhamra og snæddu saman hátíðarkvöldverð. Á dagskrá voru skemmtiatriði af betri gerðinni. Árshátíðarmyndbönd unnin af 10. bekkingum voru frumsýnd, Klara okkar Blöndal í 9. AN sigurvegari Söngkeppni Samkóp, söng sigurlag sitt, veglegir vinningar voru dregnir út í happadrætti nemandaráðs. DJ-ar kvöldsins voru fyrrum nemendur Lindaskóla og héldu þeir uppi gríðarlegri stemmingu og stuði allt til loka dansleiksins.

Við óskum ykkur gleðilegra páska og vonum að þið hafið það sem allra best í sólríku páskaleyfi. Kennsla hefst þriðjudaginn 19. apríl samkvæmt stundaskrá.

Posted in Fréttaflokkur.