Menningardagar

Árlegir menningardagar í Lindaskóla hefjast 14. desember. Á menningardögum er hefðbundin kennsla brotin upp. Þetta árið líkt og í fyrra verða menningardagarnir lágstemmdir vegna þeirra takmarkana sem eru vegna Covid.

Listasýning verður í miðrými skólans, þetta árið er það myndlistamaðurinn Ingvar Thor Gylfason sem sýnir verk sín þar.

Stjórnendur stjórna rafrænu bingó og eru vinningar í boði Foreldrafélags Lindaskóla. Við sendum foreldrum okkar bestu þakkir fyrir.

Skólinn býður upp á kakó og piparkökur, nemendur í 7. bekk lesa fyrir nemendur á yngsta og miðstigi og margt annað jólalegt uppbrot verður hjá kennurum.

Nemendur á elsta stigi fara í menningarferðir í miðbæ Kópavogs og Reykjavíkur.  Þorgrímur Þráinsson verður með fyrirlestur sem kallast Vertu ástfanginn af lífinu. ABC barnahjálp verður með fræðslu sem er í tengslum við heimsmarkmiðin. Geðlestin verður með fræðslu um geðsjúkdóma og Björn Berg sér um fjármálafræðslu.

Á föstudaginn ætlar Matthildur matreiðslumeistari að elda dýrindis jólamat fyrir þá sem skráðir eru í mat. Þeir sem ekki eru skráðir í mat er boðið að kaupa jólamáltíðina á kr. 500.

Mánudaginn 20. desember verða stofujól  hjá nemendum í 1.-10. bekk og jólaball hjá 1. og 2. bekk. Nánari upplýsingar um menningardagana koma frá umsjónarkennurum.

Nemendur í 8.-10. bekk kusu um það hvort þeir vildu jólaball á menningardögunum eða nýársball. Meirihluti nemenda valdi nýársball sem verður í byrjun janúar.

Síðasti skóladagur fyrir jól er 20. desember. Kennsla hefst á nýju ári 4. janúar samkvæmt stundatöflu.

Posted in Fréttaflokkur.