Skólastarf á morgun, þriðjudaginn 3. nóvember

Á morgun þriðjudag taka hertar sóttvarnareglur gildi í skólum. Okkur er gert að skipta nemendum upp í hólf og mega þessir hópar ekki blandast í skólastarfinu. Skólastarfið verður sem hér segir:

1.-4. bekkur verður með fullan skóladag frá kl. 8:20-13:20 alla daga. Hver árgangur í 1.-4. bekk er eitt hólf. Það mega vera 50 börn í hólfi.
Nemendur í 1.-2. bekk sem eru skráð í frístund geta farið þangað þegar skóla lýkur. Frístund fyrir 3.-4. bekk fellur niður tímabundið þar sem ekki má blanda saman hópum. Nemendur í 1.-4. bekk munu fá hádegismat en á morgun þurfa þau að koma með hádegisnesti. Ávaxtahressing er í boði eins og venjulega.
Nemendur í 1.-4. bekk eiga að mæta í fyrramálið milli kl. 8:10 og 8:20 og fara í sínar heimastofur eins og venjulega.

5.-7. bekkur verður í skólanum frá kl.8:20-12:00. Hvert hólf telur 25 börn og mega hólfin ekki blandast öðrum í árgangi né milli árganga í skólastarfinu. Ávaxtahressing er í boði fyrir þá sem eru í áskrift, aðrir þurfa að koma með nesti. Nemendur eiga að mæta milli kl. 8:20-8:30. Þeir koma inn í skólann í miðrými við Galtalind eða Núpalind þar sem kennarar taka á móti þeim og fara með þeim í heimastofur. Grímuskylda er fyrir þennan hóp. Skólinn skaffar grímur en sumir vilja sennilega eiga grímur sjálfir. Ekki verður boðið upp á hádegismat fyrir þennan hóp.

8.-10. bekkur verður í skólanum frá 8:30-12:40. Hvert hólf telur 25 börn og mega hólfin ekki blandast öðrum í árgangi né milli árganga í skólastarfinu. Nemendur þurfa að koma með nesti.  Þeir koma inn í skólann í miðrými við Galtalind eða Núpalind kl. 8:30-8:40 þar sem kennarar taka á móti þeim og fara með þeim í heimastofur. Grímuskylda er fyrir þennan hóp. Skólinn skaffar grímur en sumir vilja sennilega eiga grímur sjálfir. Ekki verður boðið upp á hádegismat fyrir þennan hóp.

Nemendur verða að bera grímu í kennslustofunni þegar bekkir eru heilir. Við vonumst til að það gangi vel að nota grímur og virða hólfin. Ef ekki þá höfum við aðra möguleika s.s. að minnka hópa og blanda þá saman staðnámi og fjarnámi í 5.-10. bekk. Í minni hópum þurfa nemendur ekki að vera með grímur en þá gildir tveggja metra reglan. Grímuskylda er alltaf á  göngum skólans fyrir nemendur í 5.-10. bekk.

Þetta skipulag gildir fyrir morgundaginn. Við munum taka stöðuna í lok dags og ef einhverjar breytingar verða á skipulaginu fáið þið þær upplýsingar í pósti seinnipart dags.

Með góðri kveðju frá starfsfólki Lindaskóla.

Posted in Fréttaflokkur.