Bækur nóvembermánaðr tengjast undarlegum og dularfullum atburðum. Nemendur eru hvattir til að lesa þessar bækur sem Solveig Gísladóttir bókasafnsfræðingur hefur valið.
Margt býr í myrkrinu ( Þorgrímur Þráinsson) – Efsta stig
Þegar Gabríel fer til afa síns á Búðum á Snæfellsnesi milli jóla og nýárs hefur hann ekki hugmynd um hvað bíður hans. Í myrkri og brjáluðu veðri fara undarlegir atburðir að gerast sem virðast tengjast Axlar-Birni sem bjó á svæðinu fyrir 400 árum.
Leyndardómur ljónsins (Brynhildur Þórarinsdóttir) – Miðstig
Tommi, Anna, Harri og Valdís kynnast í skólabúðunum á Reykjum. Þau eiga að vera þar í viku en strax á fyrsta degi fara undarlegir hlutir að gerast. Dularfullur skuggi, gamalt veggjakrot og sögur af Glámi einum frægasta draugi landsins koma ímyndunaraflinu á flug. Síðan bæta rafmagnsleysi og óveður við óhugnaðinn.
Álfarannsóknin (Benný Sif Ísleifsdóttir) – Yngsta stig
Undarlegir hlutir gerast í sumarbústaðnum hjá Baldri, pabba hans og afa. Tæki brotna, kaðlar losna, vinnuvélar bila og hundurinn er skíthræddur. Baldur og Katla hefja rannsóknina með talstöðvar, tommustokk, farsíma og beikon að vopni.