Bækur marsmánaðar – umhverfismál

Bækur marsmánaðar tengjast umhverfismálum á einn eða annan hátt og eru eftirfarandi:

Unglingastig: Fjallaverksmiðja Íslands eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur.

Miðstig: Silfurlykillinn eftir Sigrúnu Eldjárn.

Yngsta stig: Sagan af blá hnettinum eftir Andra Snæ Magnason

Fjallaverksmiðja Íslands eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Bókin fjallar um ungmenni sem nýlokið hafa stúdentsprófi af fjallamennskubraut á Höfn. Þau ákveða að setjast að í bragga á Breiðamerkursandi og stofna þar fríríki. Þau lifa á mat úr ruslagámum, vinna við ferðaþjónustu og njóta frelsisins. Ein í hópnum, Emma, er áhrifavaldur á samfélagsmiðlum og talar hún þar um loftslagsmál og verður fríríkið frægt um allan heim. Líf þeirra verður söluvara og gróðavon kviknar. Þegar Emma finnst meðvitundarlaus kemur í ljós að peningaöflin eru sterkari en svo að krakkarnir ráði við þau.

Silfurlykillinn. Sagan fjallar um Sóldísi, Sumarliða og pabba þeirra á tíma þar sem mannkynið hefur eyðilagt jörðina og hver og einn þarf að berjast fyrir lífi sínu. Dularfull stelpa, Karitas, blandast fljótlega inn í söguþráðinn og hefur hún dulinn tilgang sem lesandinn fær ekki að vita um fyrr en í lok sögunnar. Bókin er fallega myndskreytt af höfundinum Sigrúnu Eldjárn.

Á bláum hnetti lengst úti í geimnum búa börn sem fullorðnast ekki, þau eru villibörn. Þau sofa þegar þau eru þreytt, borða þegar þau eru svöng og leika sér þar sem þeim dettur í hug.  Eitt kvöldið þegar Brimir og Hulda eru stödd í Svörtufjöru lendir stjarna í fjörunni. Það verður mikil sprenging og í reyknum mótar fyrir skuggalegri veru sem starir út í myrkrið. Og þá hefst ævintýrið sem reynir á vináttu og ráðsnilld barnanna á bláa hnettinum.

Solveig Gísladóttir, skólasafni Lindaskóla

Posted in Fréttaflokkur.