Bækur mánaðarins í Lindaskóla

Í hverjum mánuði eru bækur mánaðarins valdar í Lindaskóla.  Það er  Solveg Helga Gísladóttir bókasafnsfræðingur á skólabókasafninu okkar sem velur bækur sem henta nemendum á hverju aldursstigi. Bækurnar eru síðan kynntar á upplýsingaskjá skólans en auk þess eru þessar upplýsingar á skólabókasafninu og hjá kennurum. Þetta er liður í því að vekja athygli á bókmenntum meðal nemenda og hvetja þá til lestrar.

Hugmyndin um bækur mánaðarins kom upphaflega fram á vinnufundi um innra mat skólans sem lið í því að efla áhuga nemenda á lestri.

Allt skólasamfélagið þarf að standa saman til að efla lestur barna og unglinga. Við hvetjum forráðamenn til að gefa sér tíma til að huga að þessum mikilvæga þætti skólastarfsins og hvetja börn sín að lesa.

 

Bækur mánaðarins í desember 2019 – Sögur sem gerast á  jólunum:

Unglingar – Garðurinn, Gerður Kristný. Eyju bregður þegar hún lítur út um gluggann og sér að hinum megin við götuna er gríðarmikill kirkjugarður,   fullur af legsteinum og krossum. Þvílíkir nágrannar! Þó versnar allt  þegar pabbi hennar kaupir brúnan leðurstól í antíkbúð. Foreldrum hennar finnst hann algert æði en Eyja finnur strax að stólnum fylgir eitthvað sem er óvelkomið inn á heimilið – eitthvað vont.

Miðstig – Pabbi prófessor, Gunnar Helgason. Á ísskápnum hangir listi yfir allt sem þarf að gera fyrir jólin og verkstjórinn er pabbi prófessor. Það er ekki séns að þetta náist. Hvernig verður jólahaldið á heimilinu?

Yngsta stig –Jólaleg jól, Sigrún Eldjárn. Málfríður og mamma hennar hafa alveg steingleymt að undirbúa jólin. Þegar Kuggur bendir þeim á þetta taka þær hressilega til hendinni, síðan fá þær góða gesti og jólin halda innreið sína.

Posted in Fréttaflokkur.