Síðustu dagana á skólaárinu var mikið um að vera. Allir bekkir fóru í ferðir til að auðga andann, setja lokapunkt við námsefni vetrarins og létta lundina svona rétt í lokin.
Nemendur í 1. bekk fóru í Guðmundarlund.
2. bekkur skellti sér í sveitaferð upp að Hraðastöðum í Mosfellsdal og sáu nemendur meðal annars lömb fæðast, klöppuðu hestum, lömbum og kanínum svo eitthvað sé nefnt.
Nemendur í 3. bekk fóru yfir í Húsdýragarðinn, heppnin var með þeim varðandi veðrið og nutu krakkarnir veðurblíðunnar, borðuðu nesti úti og íbúar skordýrahúsins voru skoðaðir vandlega.
Þekkingarsetrið í Sandgerði tók á móti 4. bekk, fyrst fóru nemendur niður í fjöruna við Garðskagavita og náðu í sýni í fjörunni sem síðar voru skoðuð í smásjá.
Um miðjan maí fóru nemendur í 5. bekk í gróðursetningarferð í Yrkjuskóg Lindaskóla rétt við Guðmundarlund en verkefnið er á vegum Skógræktarfélags Kópavogs.
6. bekkingar fóru alla leið upp að Reykholti á slóðir Snorra Sturlusonar og lokuðu þar með yfirferð á Snorrasögu sem var meðal námsefnis í vetur.
Vorferð 7. bekkinga var farin 19. maí og farið var á sýningar í Perlunni, norðurljósasýningu og sýningu um vatnið einnig var farið í íshellinn.
8. bekkur fékk fræðslu á Veiðisafninu á Stokkseyri.
9. bekkingar fóru á Hernámssetrið í Hvalfirði þar sem skoðað var vandað safn minja og menningar sem tengjast sögu hernáms í Hvalfirði á þeim örlagaríku umrótartímum sem stríðsárin voru.
10. bekkingar fóru í óvissuferð sem var alfarið á vegum foreldra.
Dagarnir voru einnig nýttir við skipulagða leiki á skólalóðinni. Gönguferðir um nágrenni skólans. Síðasta daginn var Lindaskólahlaupið sem er áheitahlaup og söfnuðu nemendur fyrir ADHD samtökin sem fengu styrkinn afhentan á skólaslitum. Hefð er fyrir því að útskriftarnemendur keppi við kennara í Brennó og Stinger og skapaðis mjög skemmtileg stemning á skólalóðinni eins og sjá má á myndum.