Útskrift 10. bekkjar

Útskrift 10. bekkjar var haldin hátíðleg mánudaginn 5. júní  í matsal skólans.  Salurinn var í hátíðarbúningi.  Nemendur og foreldrar mættu spariklæddir á útskriftina sem og kennarar skólans.  Athöfnin hófst á ávarpi Guðrúnar G. Halldórsdóttur skólastjóra. Fulltrúi foreldrahópsins, Helgi Aðalsteinsson flutti skemmtilegt ávarp til útskriftarnema og í kjölfarið kom að stóru stundinni þar sem Margrét Ármann aðstoðarskólastjóri, afhenti einkunnir sem og viðurkenningar fyrir góðan námsárangur.  Skemmtiatriði komu frá útskriftarnemanum Ölmu Bergrós Hugadóttur, sem spilaði á þverflautu glæsilegt tónverk. Tveir útskriftarnemar, þær Eygló Ása Enoksdóttir og Unnur Helga Haraldsdóttir stigu  í pontu og fluttu hressandi ávarp til hópsins. Unglingakennarar stigu síðan á stokk og sungu texta til útskriftarnema við lagið „Góða ferð“ en textann gerði Þóra Björg Stefánsdóttir, íslenskukennari.  Að lokum gæddu allir sér á girnilegu hlaðborði sem foreldrar útskriftarnema sáu um. Starfsfólk Lindaskóla óskar útskriftarnemum til hamingju með daginn og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Hér má sjá nokkrar myndir frá kvöldinu.

Posted in Fréttaflokkur.