Afhending Ljóðstafs Jóns úr Vör fór fram í Salnum laugardaginn 21. febrúar við hátíðlega athöfn. Við sama tilefni voru veitt verðlaun og viðurkenningar í ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs. Nemendur í Lindaskóla hluti bæði verðlaun og viðurkenningar. 1. sætið hlaut Alexander Aron Karenarson 9. bekk fyrir ljóð sitt KRÓNUBLÖÐ. 2. sætið hlaut Heiðar Þórðarson 9. bekk fyrir ljóð sitt EITT TRÉ. Þrjú ljóð frá nemendum í Lindaskóla hlutu viðurkenningar en það voru ljóðin HA, HVAÐ SAGÐIRÐU? eftir Jóhann Emil Óðinsson og Markús Stein Ásmundson 9. bekk, LIFIÐ eftir Ólöfu Ingu Pálsdóttur 8. bekk og ljóðið VONDUR TÍMI, RÉTTUR STAÐUR eftir Alexander Aron Karenarson 9. bekk. Við óskum nemendum innilega til hamingju og segjum LIFI LJÓÐIÐ í Lindaskóla.
Hér fyrir neðan má lesa ljóðin.
KRÓNUBLÖÐ
Ég sný mér við og ligg á bakinu
Ég heyri hljóðlátt píanóspil – spila fyrir mig
Fyrir ofan fljóta blöðin í hægum sveip
Gul og björt, eins og sólin sem skilur eftir hlýja kossa á kaldri húð minni
Blað snertir húð mína mjúklega
Feimið og hrætt, eins og ég myndi brotna
Umkringdur gulum blómum, heyri ég þau hvísla að mér
„Ég er hér“.
1. verðlaun
Alexander Aron Karenarson
9. bekk
EITT TRÉ
Eitt tré
Ekki neitt meira
Bara eitt tré
Það þarf ekkert meira
Einungis eitt tré
Og einn lítill fugl
Ofan á litlum steini
Það þarf ekkert meira
Á þessari litlu jörð
Það er ekkert meira
2. verðlaun
Heiðar Þórðarson
9. bekk
HA. HVAÐ SAGÐIRÐU?
Hvort kom appelsína eða appelsínugulur á undan?
Eggið eða hænan?
Endirinn og lífið er framundan!
Höfum við pokann alltaf vistvænan?
Verður áfengi aftur bannað?
Hvað er eiginlega klukkan?
Er hafið fullkannað?
Bráðum kemur hrukkan!
Börkur býr til blað
Og Valur flýgur
Úlfur stekkur í blóðbað
Húni berst við tígur
Vá hvað ég þarf að pissa
Hvað í lífinu lærðirðu?
Hár hvellur líklegast byssa
Ha. Hvað sagðirðu?
Viðurkenning
Jóhann Emil Óðinsson og Markús Steinn Ásmundsson
9. bekk
LÍFIÐ
Lífið er eins og fótbolti,
þú þarft kjark, sjálfstraust
og hugrekki
til að sigra leikinn.
Lífið er eins og fótbolti,
þú lendir í meiðslum,
mótbyr
og árekstrum
en þú heldur samt
alltaf áfram.
Taktu hverja æfingu
og hvern leik
eins og hann sé þinn seinasti.
Viðurkenning
Ólöf Inga Pálsdóttir
8. bekk
VONDUR TÍMI, RÉTTUR STAÐUR
Ég hélt alltaf að við værum eins og himinninn og stjörnurnar
Svo langt í burtu en svo nálægt hvort öðru
En nú sé ég að við vorum líkari sólinni og tunglinu
Svo nálægt hvort öðru en aldrei þarna á réttum tíma
Samt segir fólk að sólin og tunglið séu svo ólík
En eru samt alltaf skráð í sögubækurnar sem hlutir ætlaðir hvort öðru til endaloka
Samt var þetta vondur tími en réttur staður
Viðurkenning
Alexander Aron Karenarson
9. bekk