Kópavogsbær býður Kópavogsbúum í leikhús.

ÆVINTÝRI Í JÓLASKÓGI
Smellið  hér til að sjá auglýsingaplakat…

Kópavogsbær býður Kópavogsbúum í leikhús.

Áhorfendur ganga um skóginn í Guðmundarlundi og hitta fyrir Grýlu, Leppalúða,
Hurðaskelli og Skjóðu.

Sýningar 2. – 11. desember á tíu mínútna fresti frá 17 – 18:50. Miðapantanir hefjast 27.
nóvember kl. 12 á tix.is.

Á þessum fordæmalausu tímum, þar sem hópsamkomur eru bannaðar og lítið verður um hefðbundna
listviðburði fyrir jólin, þurfum við að hugsa út fyrir kassann og fá hugmyndir sem færa okkur
jólaandann á silfurfati en halda á sama tíma í heiðri allar sóttvarnir.

Ævintýri í Jólaskógi gerir einmitt þetta. Um er að ræða tæplega klukkutíma langa sýningu þar sem
áhorfendur ganga í litlum hópum um skóginn í Guðmundarlundi, vopnaðir vasaljósum og hitta á
ferðum sínum persónur úr jólafjölskyldu okkar Íslendinga, þau Grýlu, Leppalúða, Hurðaskelli og
Skjóðu.
Sýningar hefjast á 10 mínútna fresti og byrja ekki fyrr en farið er að skyggja. Þannig byrjar fyrsta
sýning hvers dags klukkan 17.00 og leggur þá fyrsti hópurinn af stað í vasaljósagöngu inn í skóginn.
Ferðalagið hefur verið varðað með jólakúlum, luktum og öðru jólaskrauti svo áhorfendur eigi það ekki
á hættu að villast í skóginum.
Eftir stutta göngu koma áhorfendur svo að fyrsta „sviðinu“ þar sem Skjóða tekur á móti þeim og
flytur einleikinn „Fyrir jólin“. Verkið er tæpar tíu mínútur í flutningi og þegar því lýkur heldur
hópurinn áfram ferð sinni um skóginn. Litlu innar rekast áhorfendur á Leppalúða sem segir söguna
„Jólagrauturinn“ og enn lengra inn í skóginum hittum við fyrir jólasveinamóðurina sjálfa,
tröllskessuna Grýlu. Hún færir okkur í allan sannleikann um „Það besta við jólin“. Að lokum leiðir
ferðalagið hópinn okkar til Hurðaskellis sem flytur „Jólaball“ í miðjum skóginum í Guðmundarlundi og
rekur með því smiðshöggið á sýninguna.

Áhorfendur eru hvattir til að klæða sig eftir veðri, koma vel skóaðir, með vasaljós og ekki er verra að
hafa nesti meðferðis sem hægt er að gæða sér á að sýningu lokinni. Það er fátt betra en heitt kakó á
brúsa eftir skemmtilega jólagöngu í skóginum.

Ævintýri í Jólaskógi er eftir Önnu Bergljótu Thorarensen og er það hún, ásamt Andreu Ösp
Karlsdóttur, Sigsteini Sigurbergssyni og Stefáni Benedikt Vilhelmssyni sem ber ábyrgð á því að þau
Grýla, Leppalúði, Hurðaskellir og Skjóða skili sem bestu verki. Fjórmenningarnir eru þekktastir fyrir
störf sín með Leikhópnum Lottu og eru því vön að setja upp sýningar utandyra þó vissulega sé þetta í
fyrsta sinn sem þau velja náttúruna sem sýningarstað svona að vetri til.

Frumsýnt verður í Guðmundarlundi þann 2. desember. Opnað verður fyrir miðapantanir á hádegi 27.
nóvember og sem fyrr segir býður Kópavogsbær íbúum bæjarins á fyrstu 10 sýningardagana. Alls
verða 120 sýningartímar en fáir miðar á hverja sýningu svo gott er að fara inn á tix.is við fyrsta
tækifæri og tryggja sér miða á sýningu sem hentar.

Sýningadagar: 2. – 11. desember.

Sýningatímar:
17.00, 17.10, 17.20, 17.30, 17.40, 17.50
18.00, 18.10, 18.20, 18.30, 18.40, 18.50

Góða skemmtun.

Posted in Á döfinni.