Bækur mánaðarins október 2020 – skrímsli

Ferðin á heimsenda : leitin að vorinu (Sigrún Elíasdóttir)                  

Eitt árið bólar ekkert á vorinu, klaufabárðurinn Húgó og hörkutólið Alex leggja í langferð til að grafast fyrir um hvernig stendur á þessu. Hættan bíður þeirra  og þeim veitir ekki af bæði hugrekki og hugmyndaflugi í baráttu við ísdreka, sæpúka, afturgengna úlfa og verulega geðvonda einhyrninga. Þetta er fyrsta bókin í þríleik.

 

Skrímsla-og draugaatlas heimsins

Í þessari bók er lagt af stað í ferðalag þar sem þú hittir fyrir ófrýnilegustu skepnur, forynjur og vofur veraldar. En hafðu ekki áhyggjur! Leiðsögumaður þinn á þessari vegferð er enginn annar en frægasti skrímslaveiðimaður allra tíma og í bókinni finnur þú svör við hvernig á að sigra hverja ófreskjuna á fætur annarri.

Þú mátt engan tíma missa! Pakkaðu niður hugrekkinu, fremdu hetjudáð og bjargaðu heiminum.

 

Skrímslabókaflokkurinn (Áslaug Jónsdóttir, Kalle G.,Rakel H.)

Í skrímslabókunum gerist ýmislegt, litla skrímslið eignast sætan og mjúkan kettling. Dag einn hverfur skrímslakisi og finnst hvergi. Litla skrímslið er miður sín. En af hverju er stóra skrímslið svona þögult?

Loðna skrímslið kemur í heimsókn til litla skrímslisins. Stóra skrímslið vonar að það staldri stutt við. Loðna skrímslið segist aldrei ætla heim til sín aftur!

Myrkfælni grípur litla skrímslið og það leitar til stóra skrímslisins. Stóra skrímslið er jafnsannfært og það litla um að það sé hugrakkt og óttalaust – alveg þangað til skrýtið hljóð berst utan úr myrkrinu. Þá kemur í ljós að jafnvel stór skrímsli geta verið hrædd!

Sjá nánar hér.

Solveig Gísladóttir, skólasafni Lindaskóla

Posted in Fréttaflokkur.