Það ríkti mikil gleði og fögnuður í Lindaskóla í morgun. Nemendur og starfsmenn söfnuðust saman í miðrými skólans til að fagna skáksnillingunum okkar sem tóku þátt í Íslandsmóti barnaskólasveita. Það voru brosmildir og sigurreifir skákmenn sem gengu niður stigann í miðrýminu undir hinu vinsæla lagi hljómsveitarinnar Queen, ,,We are the champions“ undir dynjandi lófaklappi viðstaddra. Já, sannkallaðir sigurvegarar.
Þegar skákmennirnir voru komnir niður hrósaði aðstoðarskólastjóri þessum 22 skákmönnum og þjálfara þeirra fyrir frábæran árangur og dugnað á skákmótinu. Hann sagði m.a. ,, Við í Lindaskóla erum virkilega stolt af ykkur. Það er ekkert sjálfgefið að ná góðum árangri. Til að ná góðum árangri þarf þrotlausar æfingar, samviskusemi, áhuga og einbeitni“.
RÚV var með fréttir af mótinu bæði í sjónvarpi og útvarpi. Þar var Lindaskóli heldur betur í forgrunni með mörg lið og góðan árangur.
Á myndinni með fréttinni má sjá Íslandsmeistarana. Hér eru fleiri myndir frá sigurhátíðinni…