Í skólastarfinu er lögð áhersla á að allir nemendur fái kennslu við sitt hæfi. Framvinda náms er háð þroskastigi einstaklingsins. Meginmarkmið með sérkennslu er að stuðla að alhliða þroska nemenda, bæði andlegum og líkamlegum. Leitast er við að ná þessu markmiði með jákvæðu viðmóti og virðingu fyrir einstaklingnum um leið og lögð eru fyrir verkefni við hæfi. Sérkennsla felur í sér breytingar á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og kennsluaðferðum. Hún er skipulögð í lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans.
Fyrir hvern nemanda eða nemendahóp í sérkennslu er gerð áætlun sem byggð er á mati á stöðu hans og þroska. Kennt er eftir þeirri áætlun og hún endurskoðuð eftir þörfum. Við leggjum áherslu á fyrirbyggjandi starf í yngstu bekkjunum og nána samvinnu á milli umsjónarkennara og sérkennara. Notuð eru ýmis lestrar- og þroskapróf í 1.-4. bekk. Lögð er sérstök áhersla á lestrarnámið í yngstu bekkjunum , en í skólanum starfa nokkrir menntaðir sérkennarar. Við hvetjum foreldra/forráðamenn til að hafa samband við sérkennara og kynna sér skipulag sérkennslunnar í skólanum.