Eineltisáætlun Lindaskóla

­­Einelti er hugtak yfir neikvætt áreiti sem einstaklingur verður fyrir reglubundið af hendi einstaklings eða hóps. Áreitið getur verið líkamlegt eða andlegt en einnig útilokun eða hunsun. Rafrænt einelti á sér stað þegar áreitið á sér stað með smáskilaboðum eða á samskiptasíðum á netinu. Við einelti er til staðar ójafnvægi í styrkleikasambandi milli gerenda og þolanda yfir langt tímabil og mikilvægt að hafa í huga að einstök atvik hvort sem um er að ræða stríðni, ágreining eða átök milli jafningja telst ekki til eineltis heldur samskiptavanda.

Fyrirbyggjandi aðgerðir í Lindaskóla

Lindaskóli leggur áherslu á góð samskipti við nemendur og forráðamenn þannig að þeir upplifi sig velkomna í skólanum bæði þegar vel gengur og eins ef eitthvað bjátar á. Mikilvægt er að allir í skólasamfélaginu vinni að því að byggja upp góða skólamenningu. Jákvætt og uppbyggilegt tal um skólastarfið og markviss vinna að góðum samskiptum og góðri framkomu nemenda eru liðir í því að byggja upp jákvæða skólamenningu.

  • Nýir nemendur fá sérstaka móttöku hjá deildarstóra í skólabyrjun. Þegar nýr nemendi hefur tekið þátt í skólastarfinu í nokkrar vikur fær hann viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa þar sem farið er yfir líðan og félagslega stöðu. Náms- og starfsráðgjafi hefur einnig samband við forráðamenn til að heyra þeirra upplifun af skólabyrjun nemandans.
  • Lögð er áhersla á að nemendur eigi góð samskipti í skólastarfinu. Unnið er með þau atvik sem upp koma í samskiptum og þau rædd og útkljáð. Á hverju skólaári eru umræður um samskipti teknar upp í öllum bekkjum og hugtakið einelti tekið fyrir. Nemendur eru ávallt hvattir til að láta vita af samskiptaerfiðleikum.
  • Í sumum árgöngum eru einstaklingsviðtöl við alla nemendur í upphafi skólaárs þar sem farið er meðal annars yfir líðan og samskipti. Nemendur eru, í þessum viðtölum, beðnir að velta fyrir sér hvort einhver bekkjarfélagi verði fyrir aðkasti eða sé utan við hópinn.
  • Á hverju skólaári eru tengslakannanir lagðar fyrir sem gefa mynd af samskiptum nemenda. Tengslakannanir eru verkfæri kennara til að styðjast við til dæmis þegar raðað er í sæti í kennslustofunni eða í hópa fyrir verkefnavinnu.
  • Hópefli er hluti af skipulagi skólastarfsins. Hópaefli getur til dæmis farið fram inni í kennslustundum í formi leikja eða ýmiss konar samvinnu. Hópefli fer einnig fram með skipulögðum ferðum nemenda.
  • Bekkjarfundir eru haldnir reglulega í öllum árgöngum skólans þar sem nemendur fá tækifæri til að tala um uppákomur og vinna sameiginlega að lausnum.
  • Í skólastarfinu er áhersla á að nemendur læri að vinna saman að verkefnum bæði innan bekkja eða árganga og eins þvert á árganga. Með því að raða nemendum saman í hópa er hægt að þjálfa þá í samvinnu, ýta undir samskipti og efla tengsl á milli nemenda.
  • Í hverjum mánuði eru ákveðin gildi í heiðri höfð í skólastarfinu. Gildin eru útskýrð fyrir nemendum og rætt hvernig þeir geti tileinkað sér þau og látið þau smitast út í samskipti sín á milli. Gildin snúast gjarnan um viðhorf nemenda til námsins og hvers annars.
  • Á haustfundum er rætt við forráðamenn um mikilvægi þeirra í samskiptamálum nemenda og þeir hvattir til að hafa gott samstarf sín á milli. Gott samstarf milli foreldra og gott samstarf heimila og skóla er oft lykilþáttur í því að mál leysist farsællega. Á haustfundum er ítrekað að forráðamenn geti alltaf haft samband við skólann ef eitthvað er og þeir hvattir til að vera í góðum samskiptum við umsjónarkennara. Deildarstjórar og náms- og starfsráðgjafi eru ávallt til aðstoðar í samskiptamálum.

Fyrirbyggjandi aðgerðir foreldra/forráðamanna

  • Við biðjum foreldra um að halda umræðu um góð samskipti á lofti og spyrja reglulega út í samskiptin innan vinahóps barna sinna.
  • Umræður um uppákomur eru mikilvægar og gott ef foreldrar ræða það við börnin sín hvernig hægt hefði verið að leysa mál á betri hátt.
  • Við biðjum foreldra að fylgjast með notkun barna sinna á samfélagsmiðlum og skoða skilaboð og rafræn samskipti.
  • Við hvetjum foreldra til að hafa samband sín á milli og vera í góðu sambandi við starfsfólk skólans.
  • Í upphafi hvers skólaárs er mikilvægt að bekkjarfulltrúar haldi fund fyrir foreldra í árganginum þar sem hægt er að ræða ýmislegt sem viðkemur komandi skólaári. Við viljum hvetja til að foreldrar nýti sér til dæmis farsældarsáttmála Heimilis og skóla til að leggja línur um ýmis málefni. Farsældarsáttmálinn getur verið verkfæri fyrir foreldra til að sammælast um viðmið og gildi sem tengjast til dæmis skjátíma, samskiptum, fyrirkomulagi á afmælisboðum o.s.frv.

Tilkynningar um samskiptavanda/einelti

  • Nemendur koma yfirleitt til síns umsjónarkennara með þær uppákomur sem verða í samskiptum.
  • Ef starfsfólk skólans verður vart við eða fær ábendingar um samskiptavanda ber að tilkynna það til viðkomandi umjónarkennar og/eða deildarstjóra.
  • Forráðamenn eru hvattir til að hafa samband við umsjónarkennara barnsins síns ef það finnur til vanlíðunar vegna samskipta í skólanum.
  • Forráðamenn geta sent inn formlega tilkynningu vegna gruns um einelti með því að skila inn eyðublaði á skrifstofu skólans. Slóð á eyðublaðið er hér.

 

Greining og mat á samskiptavanda/einelti – úrvinnsla

Þegar grunur vaknar um einelti eða tilkynning vegna gruns um einelti berst skólanum fer fyrst af stað óformleg könnun á samskiptum hjá umsjónarkennurum. Hún felur í sér að fylgst er sérstaklega með samskiptum einstaklinga eða hópa. Eins og alltaf er áhersla á umræður um góðan bekkjaranda og samskipti, uppákomur ræddar við nemendur og áhyggjur viðraðar við foreldra. Ef niðurstaðan eftir skoðun máls er sú að um samskiptavanda sé að ræða en ekki einelti er unnið áfram með málið út frá þeim forsendum. Samskiptavandi getur oft leitt af sér einelti og því er ekki síður mikilvægt að taka hann föstum tökum. Í kjölfarið er unnið með samskipti hópsins og fylgst með hvernig þau þróast. Ef niðurstaðan er sú að um einelti sé að ræða er eineltisáætlun virkjuð. Eineltisáætlun er rammi sem skólinn styðst við og felur ferlið í sér formlega skráningu, aukið upplýsingastreymi og eftirfarandi skref:

  • Í hverju tilfelli fyrir sig er myndað lausnateymi í málinu. Lausnateymi samanstendur af umsjónarkennurum hverju sinni, náms- og starfsráðgjafa og deildarstjóra. Hafi atferlisfræðingur haft aðkomu að þeim nemendum sem um ræðir er hann einnig hluti af lausnateymi. Forstöðumaður frístundar eða forstöðumaður félagsmiðstöðvar situr einnig í lausnateymi ef við á. Til að hægt sé að vinna mál farsællega þarf að koma til góð samvinna við foreldra meints þolanda og meintra gerenda enda eru þeir mikilvægur hluti af lausnateyminu hverju sinni. Sé góð samvinna til staðar eiga foreldrar ávallt stóran þátt í því að leysa samskipta- og eineltisvanda. Náist ekki samvinna er hægt að leita til Landsteymis eða annarra utanaðkomandi fagaðila.
  • Þegar formleg athugun fer af stað hefst skráning á vinnslu máls innan skólans og einnig eru rafrænar samskiptabækur útbúnar til að tryggja upplýsingaflæði milli foreldra og skóla.
  • Til að fá skýra mynd er upplýsinga aflað hjá:
    • starfsfólki skólans, frístundar og félagsmiðstöðvar eftir því sem við á
    • meintum þolanda og foreldrum hans til að fá mynd af atburðarrás og atvikum
    • meintum gerendum og foreldrum þeirra
  • Eftir því sem við á og þörf krefur er eftirfarandi gert innan skólans:
    • starfsmenn látnir vita af samskiptum nemendanna og þeir sem koma að viðkomandi nemendum, beðnir um aukið eftirlit
    • aukinn þungi settur í gæslu í útivist og frístund.
  • Hafi bekkjarkennarar ekki nýlega lagt fyrir tengslakönnun í viðkomandi bekk skulu þeir gera það í framhaldi af tilkynningu.
  • Í bekkjarstarfi halda bekkjarkennarar áfram að nota hvert tækifæri til að ræða við nemendur almennt um samskipti og halda bekkjarfundi en nú með aukinni vitund um viðkomandi mál.
  • Rætt er reglulega við meintan þolanda og meinta gerendur einstaklingslega og/eða í hópum og staðan metin. Samskipti eru skráð niður og foreldrar upplýstir.
  • Atvik sem upp koma eru skráð og tekið á þeim jafn óðum með samtölum við nemendur og foreldra. Haldi atvik áfram að koma upp þrátt fyrir tiltal er hægt að grípa til frekari aðgerða í samstarfi við foreldra. Sem dæmi má nefna aðgerðir sem takmarka aðgengi meintra gerenda að meintum þolanda t.d. í útivist eða í öðrum aðstæðum þar sem atvik hafa endurtekið komið upp.
  • Foreldrar þeirra nemenda, sem eiga hlut að máli, eru ávallt hvattir til að auka samstarf og samskipti sín á milli. Það að hittast með börnin utan skóla, hvort sem það er til að ræða málin eða efla samskipti, getur verið mjög árangursríkt.
  • Oft þarf að gefa vinnslu mála, sem snúa að samskiptavanda nemenda, góðan tíma. Takist ekki að leysa málið með því ferli sem hér hefur verið farið yfir skal vísa málinu til nemendaverndarráðs skólans. Telji nemendaverndarráð að allt hafi verið gert innan og utan skólans til að leysa málið án árangurs er leitað ráðgjafar utan skólans. Hægt er að leita til Fagráðs eineltismála í grunnskólum, annarra utanaðkomandi fagaðila eða hjá tengiliði skólans við barnavernd. Sé málið tilkynnt til barnaverndar sér hún um áframhaldandi vinnslu málsins.
  • Máli er lokað þegar ljóst er að það sé komið í góðan farveg. Eftirfylgni fer þó fram og áfram fylgst með þróun mála innan hópsins.

Allir starfsmenn skólans skulu fara eftir aðgerðaráætlun skólans varðandi eineltismál