Kæru foreldrar og forráðamenn!
Aðstæður breytast hratt í samfélaginu vegna COVID-19 veirunnar. Okkur stjórnendum finnst því mikilvægt að huga að innviðum skólans. Nokkrir starfsmenn og nemendur eru fjarverandi vegna sóttkvíar og hefur það áhrif á skólastarfið. Í ljósi aðstæðna hefur Lindaskóli sett sér aðgerðaráætlun fram að páskum.
Við ætlum að huga að góðri og markvissri kennslu til þeirra sem eru í skólanum og einnig til þeirra sem eru heima. Fjarvera nemenda frá skólanum kallar á breytingar við kennslu sem við erum nú að vinna að. Í þeirri kennslu munum við nota tölvutæknina til að vera í sambandi við nemendur sem eru heima. Í skólanum munum við leggja áherslu á kennslu í kennslustofunni en hinir ýmsu viðburðir sem kalla á stærri hópa og ferðalög verða felldir niður eða þeim frestað. Má þar nefna ferð 9. bekkja að Laugarvatni, ferð 7. bekkja að Reykjum, ferðalagi kórsins verður frestað til haustsins og keppni í Skólahreysti verður haldin án áhorfenda. Heimsóknir gesta verða takmarkaðar. Að öðru leyti verðum við á okkar venjulega góða róli. Ef foreldrar eiga erindi í skólann biðjum við þá að setja sig í samband við skrifstofu.
Starfsmenn eru hvattir til þess að fara varlega og vera mjög meðvitaðir um þær aðstæður sem við erum í. Okkur finnst mikilvægt að nemendur og starfsmenn finni til öryggis í skólanum. Við teljum það auka á vellíðan þeirra. Eftir páska tökum við stöðuna á ný.
Nú hafa starfsmenn Eflingar (skólaliðar) verið í verkfalli frá 9. mars. Skólaliðar sjá ekki um þrif á skólastofum þannig að þær eru þrifnar daglega. Mötuneyti og salur eru þrifnir af skólaliðum og eru því lokaðir. Skólaliðar þrífa miðrými en því er haldið í horfinu af skólastjóra. Spritt er í öllum stofum og nemendur eru hvattir til að sýna aðgát og sinna handþvotti vel. Starfsmenn skólans hafa fengið fræðslu um COVID -19 veiruna og viðbrögð til að hefta útbreiðslu.
Ef spurningar vakna þá er ykkur velkomið að hafa samband við okkur stjórnendur.
Með góðri kveðju,
Guðrún, Hilmar, Inga Birna og Margrét.