Leikskólasamstarf
Lindaskóli er í samstarfi við leikskólana Dal og Núp. Tilgangur samstarfsins er að kynna
grunnskólann fyrir elstu börnum leikskólanna og að yngstu nemendur grunnskólans haldi
tengslum við leikskólana. Með samstarfinu er verið að brúa bilið milli leik- og grunnskóla og
auka samfellu í námi nemenda. Samstarf skólanna felst í gagnkvæmum heimsóknum sem er ein
leið til að styrkja tengslin á milli skólastiganna.
Nemendur 1. bekkja heimsækja leikskólana einu sinni yfir veturinn í nóvember. Nemendum er
boðið að vera með elstu börnum leikskólans í valstund. Ákveðin svæði eru í vali, t.d. salur, þar
sem reynt er á hreyfifærnina og farið í leiki, listsköpun í Listaskála, byggingaleikur og fleira.
Boðið er upp á veitingar sem leikskólabörnin hjálpa til við að framreiða og sungið er saman. Hér
fá börnin tækifæri til að sýna sinn skóla og eru jafnvel að taka á móti vinum sínum sem voru
veturinn áður í leikskólanum.
Elstu börn leikskólanna fara í nokkrar heimsóknir í Lindaskóla. Í fyrstu heimsókninni í október
taka þau þátt í kennslustund 1. bekkjar og fá þannig innsýn í skólastarfið. Börnin syngja saman,
búa til stafinn sinn og fá vinnuhefti með foræfingum. Í janúar eru leikskólabörnin með 1. bekk í
skólatíma og íþróttum. Íþróttirnar fara fram í íþróttasal Lindaskóla þar sem börnin hitta
íþróttakennarana og njóta leiðsagnar þeirra og fara að því loknu í sturtu. Í febrúar taka
leikskólabörnin þátt í samstund með 1. bekk þar sem sungið er saman og flutt eru einhver atriði.
Að samstund lokinni fara leikskólabörnin með nemendum 1. bekkja í matsal skólans og borða
þar saman. Í apríl, maí fara leik- og grunnskólabörnin saman í útinám ýmist á skólalóð
Lindaskóla eða uppi í Lindaskógi.
Kennslustofa í dægradvöl Lindaskóla er opin fyrir leikskólana tvo morgna í viku. Þá hafa leikskólarnir eitt rými
út af fyrir sig í leik- og starfi og þannig kynnast leikskólabörnin betur húsnæði grunnskólans.
Forstöðumaður dægradvalar tekur á móti börnunum í fyrstu haustheimsókninni þar sem hann
kynnir sig, starfið og húsnæðið.
Aukin tengsl á milli elstu barna leikskólans og yngstu barna grunnskólans eru gagnleg fyrir báða
aldurshópa. Mikilvægt er að vinátta og traust skapist á milli barnanna, þannig að leikskólabörnin
hlakki til að hefja nám í grunnskóla.
Framhaldsskólasamstarf
Lindaskóli er í samvinnu við MK vegna kennslu í stærðfræði 203 og ensku 203 eða öðrum
áfanga eins og það kallast. Þessir áfangar eru kenndir í Lindaskóla af kennurum hér í skólanum en lokaprófin eru tekin í MK.