Lögð er mikil áhersla á gott samstarf við foreldra/forráðamenn. Með góðu samstarfi tryggjum við
gagnkvæmt traust á milli foreldra og kennara þar sem hagsmunir nemandans eru í fyrirrúmi. Að
Lindaskóla hefur alla tíð staðið öflugur og samstilltur foreldrahópur sem er mikill styrkur fyrir starf
skólans. Upplýsingagjöf til heimilanna fer að miklu leyti fram í gegnum MENTOR og heimasíðu skólans.
Í 1.- 4. bekk eru sendar heim vikulegar heimavinnuáætlanir þar sem ýmsar upplýsingar koma fram.
Í skólabyrjun eru haldnir haustfundir fyrir forráðamenn. Þar fara umsjónarkennarar yfir ýmsa þætti
skólastarfsins, fræðsluerindi eru flutt og nemendur og forráðamenn vinna saman
skólaverkefni. Haustfundir Lindaskóla eru með eftirfarandi sniði:
1. bekkur
Námskeið síðdegis sem stendur yfir í tvær og hálfa klukkustund. Þar kynna umsjónarkennarar
teymiskennsluna, inntak námsins og annað skipulag. Auk þess kynnir forstöðumaður dægradvalar starfið
í Demantabæ og fulltrúi foreldrafélagsins hlutverk og starfsemi félagsins.
2. – 6. bekkur
Haustfundir fyrir foreldra nemenda í 2. – 6. bekk eru á morgnana frá kl. 8:20- 9:30 og byrja þeir í
heimastofum viðkomandi árganga. Þar vinna nemendur og forráðamenn ákveðin verkefni saman. Um kl.
9:00 fara nemendur í útivist á meðan umsjónarkennarar ræða við foreldra og kynna starf vetrarins.
7. – 10. bekkur
Foreldraviðtöl með nemendum eru tvisvar yfir veturinn, í október og í febrúar/mars. Þar gefst tækifæri á
að fara yfir stöðu nemandans. Í 7.- 10. bekk eru haustfundir haldnir seinnipart dags eða á kvöldin án þess
að nemendur séu með. Þar er farið yfir ýmis mál er við kemur viðkomandi vetri. Í 8. bekk hefur skapast
sú hefð að hafa haustfundina með öðru sniði en aðra haustfundi í skólanum. Foreldrum er boðið upp á
fyrirlestur um unglingsárin, félagsmiðstöðin Jemen kynnt foreldrum og áður en umsjónarkennarar taka
við hópnum hefur skólinn boðið foreldrum upp á léttan málsverð þar sem umsjónararkennarar, foreldrar
og stjórnendur borða saman í skólanum. Upplýsingar um ástundun nemenda er send til foreldra einu
sinni í mánuði.
Í öllum bekkjardeildum eru nokkrir foreldrar valdir í bekkjarráð. Hlutverk þeirra er að efla góð samskipti
á milli foreldra/forráðamanna, nemenda og kennara í bekknum með því að halda a.m.k. einu sinni á ári
bekkjarkvöld í samráði við kennara. Einnig eru skipulagðar ferðir utan skóla til að auka fjölbreytni
félagsstarfs bekkjarins.