Síðustu vikuna fyrir jól ár hvert höldum við menningardaga hátíðlega hér í Lindaskóla. Við settum menningardaga mánudaginn 15.desember s.l. Þá var kynntur listamaður sem kallar sig Rakatla. Hún fær innblástur frá náttúrunni og er mikill náttúruunnandi. Listaverkin hennar bera keim af þeirri ástríðu. Nemendur fóru í hópum að skoða listasýninguna í vikunni. Einnig fóru nemendur á jólakaffihús og fengu kakó og piparkökur og hlustuðu á upplestur á jólasögu frá 7.bekk.
Í dag fimmtudag var svo stóra Jólasamstundin okkar. Þar gerðum við okkur glaðan dag öll saman í íþróttahúsinu. Nemendur 4.bekkjar fluttu að venju helgileikinn, nemendur á miðstigi sungu einsöng, fjöldasöngur og margt fleira. Óhætt er að segja að nemendur hafi skemmt sér konunglega og ekki síður kennarar. Enda er þetta einn af hápunktum haustannarinnar sem senn fer að ljúka.