Dagur gegn einelti

Föstudaginn 7. nóvember héldu nemendur og starfsfólk Lindaskóla upp á Dag gegn einelti, sem formlega er laugardaginn 8. nóvember. Þar sem dagurinn bar upp á frídag ákváðu nemendur og kennarar að færa hátíðarhöldin fram um einn dag og úr varð sannkallaður samveru- og vináttudagur í Lindaskóla.
 
Vinaverkefni og fiðrildaganga
Allir nemendur skólans unnu saman þvert á aldurshópa og mynduðu litla vinahópa. Hver hópur föndraði falleg fiðrildi og skrifaði á þau hlý og hvetjandi skilaboð. Að föndri loknu héldu nemendur og kennarar út í hverfið og dreifðu fiðrildunum um hverfið. Fiðrildin voru sett á hurðarhúna eða inn um bréfalúgur. Með þessu vildi Lindaskóli gleðja nágranna sína og minna á mikilvægi samkenndar og vináttu í daglegu lífi.
 
10. bekkur með leikskólaheimsókn, pylsuveislu og diskó
Eins og hefð er fyrir heimsótti 10. bekkur leikskólana Núp og Dal að morgni dags, þar sem eldri nemendur tóku þátt í leik og samveru með yngstu börnunum. Þegar hópurinn sneri aftur í skólann tók hann á móti öðrum nemendum með pylsuveislu og diskói í matsalnum – sem féll í einstaklega góðan jarðveg og skapaði skemmtilega stemningu.
Markmið dagsins
Markmið verkefnisins voru þríþætt:
  1. Að vekja athygli á deginum og mikilvægi þess að vinna gegn einelti.
  2. Að efla tengsl milli nemenda og árganga innan skólans.
  3. Að gefa til baka til samfélagsins og gleðja nágranna með litlum kærleiksvotti.
Vel heppnaður dagur
Dagurinn heppnaðist einstaklega vel. Nemendur gengu glaðir um hverfið og hlý móttaka nágranna yljaði öllum um hjartarætur. Mörg falleg fiðrildi skreyttu hverfið og tóku á móti fólki þegar það kom heim á föstudaginn. Fjöldi mynda af fiðrildum birtist til að mynda á hverfissíðu Lindahverfis á Facebook.
Kærar þakkir
Nemendur og starfsfólk Lindaskóla sendir öllum nágrönnum kærar þakkir fyrir hlýjar mótttökur og góð viðbrögð við verkefninu. Dagurinn var í senn skemmtilegur, innihaldsríkur og minnti okkur öll á að litlu hlutirnir skipta máli.
Posted in Fréttaflokkur.