Lindaskóli fær viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF

Í dag var heldur betur stór dagur í Lindaskóla. En undanfarin misseri hafa Lindaskóli, Demantabær og Jemen unnið að því í sameiningu að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í skólastarfið.

Barnasáttmálinn stuðlar að því að börn læri að þekkja réttindi sín, skilji þau og geti staðið vörð um þau. Með þetta að markmiði eru grunnforsendur Barnasáttmálans útgangspunktur fyrir allar ákvarðanir í skóla-og frístundastarfi. Auk þess endurspeglast þær í samskiptum barna og allra starfsmanna skólans.

Haldin var stutt athöfn fyrir nemendur og starfsmenn þar sem Réttindaráð sem skipað er nemendum úr 2.-10.bekk fékk afhenta viðurkenningu fyrir vel unnin störf undanfarin misseri. Lindaskóli, frístundin Demantabær og félagsmiðstöðin Jemen  fengu einnig afhentar viðurkenningar.

Nemandi úr 6.bekk hann Alex Óli Jónsson tók lagið fyrir nemendur og starfsfólk og er óhætt að segja að framtíðin sé björt hjá þessum unga manni sem heillaði alla með fallegum söng.

Nemendur sungu svo saman við undirleik Sophiu tónmenntakennara lagið Lífið er yndislegt.

 

Við erum mjög stolt að hafa náð þessum áfanga og höldum ótrauð áfram að vinna að því að kynna Barnasáttmálann fyrir nemendum.

Posted in Fréttaflokkur.