Þá er fjórðu kennsluviku í samkomubanni lokið. Það er óhætt að segja að nemendur og kennarar hafi staðið sig ótrúlega vel í þessum óvenjulegu aðstæðum. Þeir hafa þurft að aðlaga sig að þessu stóra samfélagslega verkefni á fjölbreyttan hátt. Kennarar hafa umbylt skipulagi og kennsluháttum. Nemendur hafa tileinkað sér breytt vinnulag og þar hefur stærsta áskorunin verið fjarnámið.
Í vikunni hafa nemendur í 1.-4. bekk verið í skólanum fram að hádegi eins og frá upphafi samgöngubannsins. Í þessari viku komu nemendur í 6. bekk tvo daga í skólann frá kl. 8:30-10:20 og voru þeir ánægðir að hitta kennara sína og bekkjarfélaga. Aðrir árgangar hafa verið í fjarkennslu.
Í fjarkennslunni hafa nemendur unnið sjálfstætt heima undir verkstjórn kennara og verið í reglulegum samskiptum við þá. Foreldrar gegna ákveðnu lykilhlutverki í heimanámi barna sinna með því að styðja þau, hvetja og hjálpa þeim að halda ákveðinni dagskrá. Þó svo að fjarnámið gangi vel er mikilvægt að fylgjast vel með líðan nemenda þegar þeir eru svona mikið heima. Við minnum foreldra á góð ráð á heimasíðu landlæknis.
Fjarkennsluvefur fyrir nemendur í 1.-5. bekk er á heimasíðu skólans, flýtihnappur á forsíðu.
Í næstu viku verður skipulag skólastarfs með svipuðu sniði og í vikunni sem er að líða.
1.-4. bekkur verður í skólanum frá kl. 8:10/8:20 -12:00.
5.-10. bekkur verður í fjarnámi í samráði við sína kennara.
6. bekkur mætir í skólann miðvikudaginn 22. apríl kl. 8:30 -10:20.
Fimmtudaginn 23. apríl er sumardagurinn fyrsti og því frí í skólanum.