Nýverið hóf göngu sína funda- og fyrirlestraröð fyrir foreldra á ZOOM, í samstarfi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Heimilis og skóla. Þar munu sérfræðingar Menntavísindasviðs ásamt góðum gestum úr samfélaginu og öðrum fræðasviðum HÍ fjalla um ólíkar hliðar fjölskyldulífsins á þeim óvenjulegum tímum sem við nú lifum: stuðning við nám barna og ungmenna, uppeldi og samskipti, tengsl heimila og skóla, ólíkar námsgreinar, leik og upplifun, frítíma og rútínu, svefn og heilsu, bugun og bjartsýni og fleira.
Foreldrar standa í eldlínunni á óvenjulegum tímum þar sem samkomubann ríkir og skóla- og frístundastarf barna er í lágmarki. Foreldrar vinna þrekvirki við að púsla saman dögunum með börnin heima við, vinnuna í fanginu, litlar sem engar tómstundir og takmarkað aðgengi að fjölskyldu. Vonir okkar standa til að fræðsla sem þessi, opið spjall og góð ráð geti komið að gagni.
Nú þegar hafa fjórir fræðslufundir verið haldnir um leikskólabarnið, líðan og geðheilsu, leik og nám úti og inni og tengsl heimila og skóla. Eftir páska heldur fundaröðin áfram og dagskráin verður aðgengileg á bakhjarl.menntamidja.is, sem og á Facebook-síðum Heimilis og skóla og Menntavísindasviðs. Á Facebook er viðburður undir heitinu Heimili og háskólinn – fræðsla fyrir foreldra: https://www.facebook.com/events/2560933257487581/?event_time_id=2560933270820913
Fyrirlestrarnir fara fram kl. 15:00-15.45 á ZOOM og eru öllum opnir. Upptökur verða einnig aðgengilegar á bakhjarl.menntamidja.is þannig hægt er að skoða þær þegar hentar.
Við hvetjum foreldra til að senda inn hugmyndir að efni og auglýsa viðburðinn í sínu nærumhverfi. Við hvetjum foreldrafélög og bekkjarfulltrúa sérstaklega til að koma þessu á framfæri í sínu skólasamfélagi.
Allir nettengdir foreldrar geta fylgst með í gegnum opinn aðgang á ZOOM en ráðlegt getur verið að hlaða niður ZOOM fyrst.