Menntastefna aðalnámskrár grunnskóla er reist á sex grunnþáttum menntunar sem eiga að vera
leiðarljós í skólastarfi og endurspeglast í starfsháttum skólans, samskiptum og skólabrag. Grunnþættir
námskrárinnar snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og
ungmenni læri að byggja sig upp bæði andlega og líkamlega, þau geti bjarga sér í samfélaginu og
unnið með öðrum. Framtíðarsýn og vilji til að hafa áhrif á samfélag sitt, breyta því og þróa er einnig
það sem grunnþættirnir snúast um.
Grunnþættirnir eru; læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og
sköpun.
Læsi
Læsi er hæfileikinn til að bera kennsl á, skilja, túlka, skapa og tjá sig með því að nota efni af ýmsu tagi
í ólíkum miðlum. Læsi og þjálfun í íslensku eru grunnforsendur náms og skiptir þáttur heimilanna ekki
síður máli hvað það varðar en þáttur skólans. Lestrarnám hefst við upphaf skólagöngunnar þar sem
aðaláhersla er lögð á lestrartækni sem er undirstaða þess að geta lesið sér til gagns. Starf kennara
snýst ekki eingöngu um að miðla þekkingu heldur einnig að liðsinna nemendum við að afla sér
þekkingar með allri þeirri tækni sem í boði er. Þjálfun í víðlæsi tekur við af námi í lestrartækni og er
hluti af lestrarnáminu alla skólagönguna.
Í Lindaskóla er leitast við að þjálfa víðlæsi, það er færni nemenda við að nota margs konar miðla til
að skapa merkingu. Unnið er heildstætt með móðurmálið og lögð áhersla á að efla gagnrýna hugsun,
þjálfa virka hlustun og æfa nemendur í munnlegum flutningi á hvers konar efni. Áhersla er lögð á
yndislestur og notkun skólabókasafnsins enda gegnir allur lestur miklu hlutverki í þjálfun lesskilnings.
Mikilvægt er að jafnvægi sé á milli skapandi læsis og röklæsis. Í Lindaskóla er stefnt að því að
nemendur vinni merkingarbær verkefni sem tengjast áhugasviði og hæfir þroska þeirra og getu.
Sjálfbærni
Sjálfbærni snýst um samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar. Algengasti skilningur á
hugtökunum sjálfbærni og sjálfbær þróun felur í sér að við skilum umhverfinu til afkomendanna, í
jafngóðu eða betra ástandi en við tókum við því.
Í Lindaskóla er leitast við að efla vitund og skilning nemenda á sjálfbærni, umhverfinu og
samfélaginu. Það er meðal annars gert með verkefninu Göngum í skólann, vordögum, þemadögum,
menningardögum og náms- og vettvangsferðum. Jafnframt fer fram í Lindaskóla útikennsla, til dæmis
í tengslum við útikennslustofuna Lindaskóg. Einnig tökum við þátt í Grænfánanum sem er verkefni í
umhverfisvernd á vegum Landverndar. Það kennir nemendum meðal annars að flokka sorp og stuðla
að orkusparnaði.
Heilbrigði og velferð
Heilbrigði byggir á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Í Lindaskóla er leitast við að efla
heilbrigði og stuðla að velferð og vellíðan. Þetta er gert með því meðal annars að leggja áherslu á
jákvæð samskipti, holla og góða næringu, hreyfingu og kynheilbrigði. Unnið er að forvörnum af
ýmsum toga. Starfsfólk skólans hefur að leiðarljósi að styrkja sjálfsmynd nemenda og hjálpa þeim að
bera ábyrgð á eigin lífi. Með samvinnu þeirra sem að skólanum koma er leitast við að viðhalda góðum
skólabrag.
Í skólanum er verkefnið Göngum í skólann þar sem nemendur eru hvattir til að ganga í skólann. Í
skólanum er boðið upp á valfagið Hreystival á unglingastigi og á lóð skólans er komin hreystibraut. Í
1. og 2. bekk fá nemendur þjálfun í hreyfifærni til viðbótar við almenna íþróttakennslu. Á vorin eru
íþróttadagar þar sem nemendur spreyta sig í ýmsum þrautum.
Í Lindaskóla er boðið upp á áskrift að ávöxtum í morgunhressingu og heitan mat í hádeginu.
Hjúkrunarfræðingar skólans vinna eftir verkefninu 6H frá Landlæknisembættinu í gegnum alla
skólagönguna. Einnig er unnið að ýmsum forvarnarverkefnum í gegnum lífsleiknikennslu og á vegum
ýmissa utanaðkomandi aðila.
Til að efla góðan skólabrag er árlega haldin þemavika þar sem blöndun er milli bekkja og/eða
árganga. Nemendur í 6.bekk eru skólavinir 1.bekkinga og fylgja þeim í útivist. Haldnir eru
bekkjarfundir og samstundir nemenda.
Lýðræði og mannréttindi
Lýðræðis- og mannréttindamenntun byggist á gagnrýnni hugsun og ígrundun um grunngildi
samfélagsins. Uppeldi til lýðræðis felst í því að barn sé og verði virkur þátttakandi í samfélagi. Að vera
virkur þátttakandi í samfélagi krefst ákveðinna mannkosta eins og frumkvæðis, sjálfstæðrar
dómgreindar, hæfileika til að geta sett sig í spor annarra og geta unnið með öðrum af virðingu og
sanngirni.
Í Lindaskóla er leitast við að efla gagnrýna hugsun og lögð áhersla á að borin sé virðing fyrir
skoðunum annarra. Þessu má til dæmis ná fram með samræðum, hóp- og paravinnu,
bekkjarfundum, þátttöku í skipulagningu félagslífs og samstundar.
Jafnrétti
Jafnrétti felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu með það að leiðarljósi að
kenna börnum og unglingum að greina aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda
annarra.
Í Lindaskóla er leitast við að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum og rækta
hæfileika sína. Stefnt er að allir nemendur hafi sem jafnasta og víðtækasta möguleika. Allt starf,
aðstæður og búnaður skal ætíð taka mið af jafnrétti allra sem að skólanum koma eða nota þjónustu
hans.
Sköpun
Í sköpun felst að móta viðfangsefni og miðla þeim; búa til, gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en
viðkomandi kann eða hefur gert áður. Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja
ímyndunaraflið og leika sér með möguleika. Sköpunarferlið sjálft og að horfa á það með gagnrýnum
augum skiptir ekki síður máli en afraksturinn. Frumkvæði nemenda fer eftir því hversu mikið rými þeir
hafa fengið fyrir skapandi hugsun.
Sköpun er mikilvægur þáttur í námi og starfi. Í Lindaskóla er leitast við að flétta sköpun inn í nám
nemenda. Leitast er við að veita aðstöðu til að nýta tækni og miðla. Í Lindaskóla er unnið með
samþættingu námsgreina, samstarf er milli kennara, árganga og aldursstiga.
Nemendum býðst að hafa áhrif á framvindu verkefna með því að sýna sjálfstæð vinnubrögð og bera
ábyrgð á eigin verkefnum. Kennarar leggja sig fram við að vera hvetjandi og ýta markvisst undir
forvitni og tilraunir nemenda. Reynt er að gera verkefni nemenda sýnileg. Verkefni geta verið af öllu
tagi, nemendur finna hugmyndum sínum farveg með ólíkum efnistökum og aðferðum.