13.02.2019  Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk

Þá er lokið skólakeppninni í Stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk hjá okkur. 10 lesarar úr 7. bekkjunum kepptu um að komast í úrslitakeppnina í Salnum í Kópavogi 7. mars nk. til að keppa við aðra nemendur úr grunnskólum Kópavogs. Gestir voru allir nemendur 7. bekkjar og aðstandendur lesaranna. María Ósk Steinsdóttir úr 10. bekk söng fyrir gesti í hléi. Dómarar keppninnar voru þau Dóra Unnsteinsdóttir íslenskukennari, Guðbjörg Björnsdóttir sérkennari og Sigurður Sveinn Þorkelsson enskukennari. Þjálfari keppenda og umsjónarmaður keppninnar er Solveig H. Gísladóttir bókasafnsfræðingur. Sigurvegarar voru Hulda Sigrún Orradóttir og Atli Þór Gunnarsson og varamaður er Arnar Elí Guðlaugsson. Þau munu keppa fyrir hönd skólans í Kópavogskeppninni sem haldin verður í Salnum þann 7. mars. Við þökkum þessum glæsilega hópi lesara kærlega fyrir þátttökuna og óskum sigurvegurum til hamingju með að vera komin í úrslitahópinn. Hér eru myndir frá keppninni...


08.02.2019  Námsmat og foreldraviðtöl

Vikuna 11. – 15. febrúar fara fram foreldra- og nemendaviðtöl í Lindaskóla. Viðtölin fara fram eftir að kennslu lýkur á daginn.

Í foreldra- og nemendaviðtölunum er farið almennt yfir líðan nemandans, hvernig náminu miðar, hvað gengur vel og hvað þarf að bæta. Ekki eru afhent formleg vitnisburðarblöð heldur eru þessi viðtöl hugsuð sem almennt spjall á milli heimilis og skóla.

Allir nemendur Lindaskóla fá munnlegt stöðumat úr námsgreinum og eins er búið að gefa fyrir próf og verkefni inni á Mentor samkvæmt nýju námsmati. Lindaskóli er í innleiðingarferli með nýja námsmatið í 1. – 7. bekk og því er eru sumir farnir að gefa í litum/táknum á meðan aðrir kennarar / árgangar gefa að mestu leyti fyrir í umsögnum. Unglingadeildin hefur lokið innleiðingu nýja námsmatsins og munu allir unglingar fá bæði umsagnir og liti. Foreldrar og nemendur eru hvattir til að skoða námsmatið inni á Mentor fyrir viðtölin.

Stefnt er því að gefa vitnisburð fyrir allar námsgreinar í vor samkvæmt nýju námsmati.

Hér má sjá ítarlegt bréf um námsmatið í Lindaskóla sem sent var heim til foreldra fyrir nokkru.


08.02.2019  Skákæfingar í Lindaskóla

Skákæfingar hefjast í Lindaskóla 12. febrúar – 7. mars fyrir nemendur í 1. – 4. bekk. Skákkennarinn  heitir Kristófer Gautason og er að kenna bæði hjá skákdeild Breiðabliks og einnig í skólum á höfuðborgarsvæðinu.
Æfingarnar fara fram á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 14:20-16:00 í samstundasalnum í Lindaskóla.

Æfingar verða á eftirfarandi tímum:
Þriðjudaga kl. 14:20-15:10 og 15:10-16:00 fyrir nemendur í 1.-2. bekk
Fimmtudaga kl. 14:20-15:10 og 15:10-16:00 fyrir nemendur í 3.-4. bekk.

Forráðamenn 1.-4. bekkja hafa fengið póst heim heim með leiðbeiningum varðandi skráningu. Þess má geta að skákæfingar hafa verið í vetur í Demantabæ í vetur undir stjórn Nóa Jónssonar. Þessar æfingar eru í samstarfi við Demantabæ.

Stefnt er að því að Lindaskóli sendi lið á Íslandsmót barnaskólasveita 1.-3. bekkja sem fer fram föstudaginn 22. febrúar.  Nánar um það síðar.  


Lindaskóli
www.lindaskoli.is
Núpalind 7 - 201 Kópavogur - Sími: 441-3000