Skólaslit Lindaskóla

Hér eru myndir…Föstudaginn 5. júní var Lindaskóla slitið í 23. sinn. Látlaus skólaslit voru á hverju stigi fyrir sig og söng kór Lindaskóla fyrir nemendur á yngsta og miðstigi. Guðrún G. Halldórsdóttir fór lauslega yfir skólastarfið á liðnu skólaári sem var heldur betur óvenjulegt vegna heimsfaraldurs COVID 19 og verkfalla. Í máli hennar kom fram að skólastarfið hafi gengið ótrúlega vel þrátt fyrir samkomubann og hrósaði nemendum og kennurum fyrir gott starf við óvenjulegar aðstæður, hvort sem var í skólanum eða heima í fjarnámi.

Hún sagði að nemendur hafi verið duglegir í vetur að taka þátt í því starfi sem skólinn býður upp á. Nefndi hún í því samhengi öflugt skáklíf, Lindaskólakórinn, flotta fulltrúa í stóru upplestarkeppninni, sigur Lindaskóla í Skólahreysti og þátttöku nemenda í Lindaskólasprettinum.

Guðrún minnti  á gildi skólans sem eru vinátta, virðing og viska. Hún bað nemendur að hafa þau alltaf í huga í öllum samskiptum og muna hvað það er sem gerir skóla að góðum skóla. ,,Það er fólkið sem í honum er og jákvæðu samskiptin þeirra í milli. Við viljum alltaf vera saman í sátt“.

Guðrún hvatti nemendur til að vera duglega að lesa á hverjum degi í allt sumar. Hún sagði það skipta miklu máli að halda áfram að þjálfa lesturinn daglega svo að nemendur tapi ekki niður færni í löngu sumarfríi. ,,Við erum aldrei í frí frá lestri“. Hún hvatti nemendur jafnframt til að vera duglega að vera úti að leika og hitta vini. Byggja upp kraftinn.

Að lokinni dagskrá í matsal skólans fóru nemendur og hittu kennara sína til að fá vitnisburð sinn. Hér eru myndir…

Gleðilegt sumar

Posted in Fréttaflokkur.